Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru

Málsnúmer 2019020459

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 3450. fundur - 05.03.2019

Umræða um drög að frumvarpi til laga um um breytingu á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

Drögin eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1309

Málshefjandi, Ingibjörg Ólöf Isaksen, reifaði innihald frumvarpsins og hugsanlegar afleiðingar þess og kynnti jafnframt bókun um málið.

Í umræðum tóku til máls Gunnar Gíslason, Hilda Jana Gísladóttir, Sóley Björk Stefánsdóttir, Hlynur Jóhannsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen, Gunnar Gíslason (í annað sinn) og Ingibjörg Ólöf Isaksen.
Ingibjörg Ólöf Isaksen B-lista, Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista, Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista og Hlynur Jóhannsson M-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Bæjarfulltrúar B-lista, V-lista og M-lista hvetja íslensk stjórnvöld til að kanna hvort endurskoða megi ákvæði innan EES samningsins með það að markmiði að hægt verði að tryggja áframhaldandi sérstöðu Íslands hvað varðar heilbrigði búfjárstofna og lága tíðni sýkinga af völdum fjölónæmra baktería. Matvælaöryggi og lýðheilsa eiga alltaf að vega þyngra en viðskiptahagsmunir.

Áhyggjuefni er hversu skammt á veg undirbúningur fyrirhugaðra mótvægisaðgerða er kominn. Aðgerðaráætlunin kemur inn á mikilvæg atriði en dugir ekki ein og sér, auk þess sem gefinn er afar knappur tími til innleiðingar.

Verði frumvarpið að veruleika mun það hafa neikvæð áhrif á starfsumhverfi landbúnaðarins. Á Akureyri má áætla að á fjórða hundrað störf séu beint afleidd af landbúnaði, þar af 220 í kjötvinnslu. Landbúnaður er ein meginundirstaða atvinnu á landsbyggðinni. Óábyrgt væri af stjórnvöldum að samþykkja frumvarp sem hefur slíkar afleiðingar án þess að tryggja samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar, endurskoða tollasaminga og móta framtíðarsýn fyrir atvinnugreinina.