Samfella í þjónustu við aldraða

Málsnúmer 2017100451

Vakta málsnúmer

Velferðarráð - 1264. fundur - 01.11.2017

Í framhaldi af umfjöllun fjölmiðla um fjölda hjúkrunarrýma á Akureyri, var haft eftir framkvæmdastjóra Öldrunarheimila Akureyrar, Halldóri S. Guðmundssyni, að ekki væri þörf á því að fjölga hjúkrunarrýmum hjá ÖA. Var í umfjölluninni vísað m.a. til fyrirliggjandi tillagna starfshóps heilbrigðisráðherra um stefnumótun í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða til ársins 2035.

Til útskýringar á ummælum sínum lagði framkvæmdastjóri fram minnisblað og yfirlit um stöðu og þróun rýma hjá ÖA á síðustu árum. Samkvæmt samantekinni hefur samanlögðum fjölda dvalarrýma og hjúkrunarrýma ÖA, verið að fækka síðan árið 2004 sem skýrist aðallega af fækkun dvalarrýma. Skráðum hjúkrunarrýmum á Akureyri hefur einnig fækkað, sem skýrist að mestu af fækkun hjúkrunarrýma hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri. Að hluta til hefur fækkun rýma verið mætt með fjölgun dagdvalar rýma hjá ÖA.

Í minnisblaðinu kemur fram að á liðnum árum og misserum hefur ÖA unnið markvisst að eflingu samstarfs um samfellu og heildræna þjónustu en að ljóst sé að efla þurfi enn frekar samhæfingu milli þjónustuaðila í þjónustu við eldra fólk á Akureyri.
Velferðarráð kallar eftir aukinni samfellu í þjónustu við aldraða og vekur athygli á brýnni þörf fyrir aukna heimaþjónustu og heimahjúkrun.

Velferðarráð - 1302. fundur - 05.06.2019

Á grundvelli vinnu sem hófst í október 2016, hafa fulltrúar frá ÖA, HSN, SAk og búsetusviði, átt reglulega fundi til að vinna ábendingar og tillögur sem komu fram á vinnufundi starfsfólks þessara aðila sem haldinn var 4. maí 2018.

Auk ýmissa verkefna hefur verið unnið að undirbúningi málþings þar sem til umfjöllunar yrði þjónustan í heild sinni og markmiðið væri að miðla því hvaða þjónusta sé í boði á hinum ýmsu stöðum.

Nú liggja fyrir áform um málþing 10. október 2019, sem haldið yrði í Háskólanum á Akureyri, undir yfirskriftinni "Er gott að eldast á Norðurlandi/Akureyri?"