Daggarlundur - mótmæli og áhyggjur íbúa Eikarlundar

Málsnúmer 2011080056

Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd - 120. fundur - 24.08.2011

Erindi dagsett 18. ágúst 2011 þar sem 40 undirritaðir íbúar við Eikarlund vilja koma á framfæri eftirfarandi:
a) Óskað er eftir að byggingar verði ekki leyfðar á svæðinu við Daggarlund fyrr en ljóst verði að allt svæðið verði byggt í samfellu þannig að byggingartíma ljúki innan viðunandi tímamarka.
b) Jafnframt óska íbúar við Eikarlund eftir að hæðarpunktar verði teknir á lóðum og húsum sem fyrir eru á svæðinu, næst væntanlegu hverfi og fylgst verði nákvæmlega með breytingum sem geta orðið við framkvæmdir vegna hugsanlegs jarðvegssigs.

Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulag við Daggarlund og Brálund þann 5. maí 2009 sem nú hefur verið staðfest. Á grundvelli þess voru hafnar framkvæmdir við gatnagerðina og verkið boðið út. Verkið er á áætlun og er gert ráð fyrir að gatnagerðinni ljúki í lok september. Skipulagsnefnd bendir á að nú eru aðeins lausar 14 einbýlishúsalóðir fyrir hús á einni hæð utan lóðanna í Daggarlundi. Skipulagsnefnd hefur nú þegar úthlutað fjórum lóðum við götuna. Talsverður áhugi er fyrir uppbyggingu við Daggarlund miðað við fyrirspurnir til skipulagsdeildar.

Skipulagsnefnd óskar eftir við framkvæmdadeild að hæðarpunktar verði teknir á lóðum og húsum við Eikarlund sem snúa að framkvæmdasvæði.