Tónlistarskólinn á Akureyri - greinargerð um starfsemi og framtíðaráform

Málsnúmer 2010050105

Vakta málsnúmer

Skólanefnd - 17. fundur - 06.09.2010

Aðalheiður Bragadóttir og Anna Lilja Sævarsdóttir yfirgáfu fundinn kl. 16.40.
Skólastjóri Tónlistarskólans, Hjörleifur Örn Jónsson, gerði grein fyrir starfsemi skólans og áætluðum breytingum á starfsemi hans eftir flutning í nýtt húsnæði í Hofi. Þar kom m.a. fram að á síðasta skólaári var skólinn rekinn innan heimilda og var rekstrarafgangur tæpar 4 milljónir. Þetta náðist með miklu aðhaldi og breytingum á rekstri skólans. Síðastliðið haust var ráðist í skipulagsbreytingar á starfsemi skólans og var sett sú meginregla að allir nemendur tækju annaðhvort árs- eða áfangapróf, að allir nemendur sæktu tónfræðigreinar og tækju þátt í samspili, en árið 2008 voru um 200 nemendur í námi við almennu deildina þar sem þessa var ekki krafist. Haldnir voru foreldrafundir að hausti þar sem skólastjórnendur útskýrðu hið nýja fyrirkomulag og fóru meðal annars yfir kostnaðarskiptingu á milli sveitarfélags og þjónustuþega. Í kjölfar kröfu um aukið gegnsæi námsárangurs var tekinn upp sá siður að útbúa einstaklingskennsluáætlanir fyrir alla nemendur skólans og endurskoða þær reglulega. Kennarar héldu fundi með foreldrum og nemendum að hausti, fóru yfir áætlanir og hittu síðan samkennara á sömu hljóðfæri með reglulegu millibili yfir veturinn til að ræða framvindu einstakra nemenda. Fjöldi áfangaprófa frá Tónlistarskólanum á Akureyri voru 27 árið 2009. Í lok skólaársins 2009-2010 hafði 61 nemandi tekið samræmd áfangapróf í skólanum. Þó að ársbundnar sveiflur geti vissulega haft áhrif í þessum efnum telur stjórn skólans þó að þessi tvöföldun á fjölda áfangaprófa á milli ára sé að miklu leyti afrakstur skýrrar stefnu sem gerir sanngjarna kröfu um árangur bæði til nemenda og kennara. Haustið 2010 var á Akureyri í fyrsta sinn gerð sú krafa í tónlistarskóla á Íslandi að tónlistarkennarar ynnu stóran hluta af undirbúningi fyrir kennslu og önnur fagleg störf í skólanum. Á síðustu tveimur árunum hefur skólinn lagt mikla áherslu á samstarf við aðrar stofnanir og sýnileika í bæjarlífinu og mun það verða gert áfram þó ýmsar breytingar verði með tilkomu aðstöðunnar í Hofi. Akureyringar gera miklar kröfur til Tónlistarskólans síns. Hlutverk hans er ekki einungis að þjónusta grunnskóla, veita almenna tónlistarfræðslu og sérhæfða einkakennslu fyrir nemendur á efri stigum heldur er einnig gerð skýlaus krafa um að Tónlistarskólinn standi fyrir uppákomum af margvíslegu tagi og sjái bæjarbúum fyrir tónlistarflutningi við ýmis tækifæri. Stefna skólans er að vinna ötullega samkvæmt aðalnámskrá menntamálaráðuneytisins og tryggja að starfið í skólanum verði unnið á eins faglegum forsendum og auðið er með allri þeirri þjónustu sem það krefst. Stjórn skólans bindur vonir við að hið nýja fyrirkomulag muni hleypa nýju lífi í starf skólans í Hofi og virkja þann faglega kraft og sérþekkingu sem í kennurum skólans býr, menningarsamfélaginu til góðs.

Skólanefnd þakkar Hjörleifi fyrir mjög góða yfirferð um starf og framtíðarsýn Tónlistarskólans.