30.okt

Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld

Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld

UPPLESTUR 

Mánudaginn 30. október kl. 17:00

Vilhelm Vilhelmsson, doktor í sagnfræði frá Háskóla Íslands, les upp úr nýútkominni bók sinni Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld.

Vistarbandið var skylda búlausra til að ráða sig í ársvistir hjá bændum og lúta húsaga þeirra. Það var ein af grunnstoðum samfélagsins á 19. öld og setti mark sitt á daglegt líf alþýðu og hefur verið líkt við ánauð. En var það í raun svo? Voru vinnuhjú þrælar undir hæl húsbænda sinna? Eða voru þau agalaus og óhlýðin líkt og tíðar umkvartanir ráðamanna gáfu til kynna? 


Í bókinni er varpað ljósi á togstreitu á milli undirsáta og yfirboðara í gamla sveitasamfélaginu. Einblínt er á löngun vinnufólks til að ráða eigin högum, möguleikum þess til að spyrna við valdboði, andæfa hlutskipti sínu og öðlast sjálfsvirðingu og reisn. 


Félagsgerð hins gamla íslenska sveitasamfélags er sett í sögulegt samhengi atvinnuhátta og félagsgerðar á Norðurlöndum fyrir tíma iðnvæðingar. Hlutverk vistarbandsins á umbrotaskeiði Íslandssögunnar er endurskoðað og sögð saga alþýðunnar frá sjónarhorni hennar sjálfrar fremur en valdhafa.
Í bókinni eru færð rök fyrir því að verkafólk fyrri tíma hafi ekki verið viljalaus verkfæri sem yfirvöld og húsbændur gátu ráðskast með að vild. Þvert á móti hafi það haft áhrif á hlutskipti sitt og getað bætt stöðu sína og kjör. Þannig mótaði andóf vinnufólks íslenskt samfélag á 19. öld og fram á okkar daga.


Um höfundinn:
Vilhelm Vilhelmsson (f. 1980) er doktor í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hann er sjálfstætt starfandi fræðimaður og annar af tveimur ritstjórum Sögu, tímarits Sögufélags. Hann hefur birt fjölda greina um söguleg efni en þetta er hans fyrsta bók.

Allir hjartanlega velkomnir!