Láttu þér líða vel

Flest er öðruvísi nú en við eigum að venjast. Margir vinna heima og hitta færri en áður, þjónusta er víða takmörkuð og skipulögð afþreying liggur í flestum tilvikum niðri.

Þrátt fyrir þetta þá skiptir máli að láta sér líða vel og gera það besta úr aðstæðum – munum að þetta er tímabundið ástand.

Það er enn hægt að gera ótrúlega margt skemmtilegt og uppbyggilegt. Hreyfing og útivist stuðlar að vellíðan og eru Akureyringar heppnir að geta valið úr fjölbreyttum útivistarmöguleikum. Alls konar afþreying, viðburðir og menningarefni fyrir alla aldurshópa hefur auk þess verið gert aðgengilegt á vefnum.

Hér hafa verið teknar saman nokkrar hugmyndir að því sem er gaman að gera í samkomubanni á Akureyri og góð ráð sem snúa að vellíðan, virkni og heimavinnu. Athugið að listinn er ekki tæmandi og verður uppfærður.

Útivist og hreyfing

Skemmtilegar og einfaldar gönguleiðir

Fjölbreytt úrval gönguleiða má finna í bænum og nágrenni hans sem flestar eru aðgengilegar allt árið. Hefur þú til dæmis gengið upp að Fálkafelli, hringinn við gömlu Gróðrarstöðina eða Lögmannshlíðarhringinn? Nú eða á upphituðum æfingabrautum á Þórssvæðinu?

Kynning á gönguleiðum í bæjarlandinu með kortum og fleiri upplýsingum má finna á www.visitakureyri.is

Útilistaverkaganga

Á Akureyri eru fjölmörg útilistaverk sem gaman er að skoða á gönguferðum. Hér má finna allt um þau. Hvað getur fjölskyldan fundið mörg útilistaverk í einum göngutúr?

Lestrarganga

Á Akureyri liggur skemmtileg barnabóka lestraganga frá Amtsbókasafninu að Nonnahúsi. Hér má finna allt um gönguna. 

Söguskiltin

Víða um eldri hluta bæjarins, allt frá Oddeyrarbryggju að miðbænum og áfram suður innbæinn, hafa verið reist skilti sem segja sögu húsa og staðhátta í máli og myndum.

Nánari upplýsingar um skiltin og staðsetningu þeirra má finna hér. 

Telja bangsa

Í kjölfar samkomubannsins hafa margir bæjarbúar tekið upp þann sið að setja bangsa eða önnur tuskudýr út í glugga á heimilum sínum. Mörg börn stytta sér stundir og fara í göngutúr með foreldrum og telja bangsana sem þau sjá. 

Svo er hægt að búa til keppni; hver finnur flesta bangsa í göngutúrnum?

Söguganga um innbærinn

Til er bæklingur sem tekur fyrir helstu hús og staði á leiðinni frá torginu í miðbænum og suður innbæinn sem er tilvalin leið fyrir fróðleiksfúsa. 

Gönguskíði - Hlíðarfjall og Kjarnaskógur

Í bæjarlandinu má finna tvö fín gönguskíðasvæði sem troðin eru reglulega meðan nægur er snjór. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um svæðin á
meðfylgjandi hlekkjum.

Hlíðarfjall - kort af svæðinu
Kjarnaskógur - kort af svæðinu

Staðan á brautunum (tími síðan troðið var)

Sleðabrekkurnar

Í Lundahverfi má finna hina vinsælu jólasveinabrekku og í Kjarnaskógi eru tvær sleðabrekkur, ein fyrir neðan Sólúrið og önnur hjá Einari skógarverði.

Út að leika

Á Akureyri eru rúmlega 20 leikvellir staðsettir víða um bæinn. Flestir eru enn þaktir snjó og er nánast ómögulegt að hreinsa þá með vélum án þess að eiga á hættu að skemma eitthvað. Íbúar eru hvattir til að grípa skófluna með og slá tvær flugur í einu höggi, hreyfing og skemmtun. Með þessu er þó ekki verið að hvetja til hópamyndunar, munum eftir tilmælum um fjölda- og fjarlægðartakmarkanir.

Sendið okkur endilega myndir af mokstri og leik á akureyrarstofa@akureyri.is

Út að hlaupa

Nú er kominn tími til að koma sér í gott form fyrir hlaupasumarið. Göngustígakerfi bæjarins henta vel til hlaupaæfinga, hér er kort af bænum, hér eru nokkrar hugmyndir að leiðum og á æfingasvæði Þórs má finna upphitaðar hlaupabrautir.

Snjókallagerð

Á meðan snjór er víða í görðum og opnum svæðum er um að gera að nýta hann og hugmyndaflugið og búa til snjókall eða aðrar snjóverur.

Leyfðu öðrum að njóta og deildu mynd/-um á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #snjorak

Leitin að vortáknunum

Nú eru farfuglarnir farnir að tínast til landsins einn af öðrum og fyrstu plönturnar farnar að taka við sér með brumi á runnum og trjám auk þess að fyrstu blómin láta á sér kræla.

Lærðu um það sem þú sérð og deildu myndum af þessum gleðilegu tíðindum á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #vorakureyri

Folf

Á Akureyri eru 5 folfvellir. Sjá nánar. 

Önnur afþreying

 

Safnið í sófann

Þótt söfnin á Akureyri hafi lokað tímabundið, þá eru þau að bregðast við aðstæðum með því að auka virkni á samfélagsmiðlum undir yfirskriftinni #safniðísófann. Þau bjóða upp á efni og viðburði sem má njóta heima og hvenær sem er. Fjölbreytt, fræðandi, óvænt og skemmtilegt!

Verið dugleg að fylgjast með starfi safnanna okkar í netheimum.

Nánar hér. 

 

Alls konar hjá félagsmiðstöðvum

Starfsemi Félagsmiðstöðva Akureyrar (Félak) hefur verið aðlöguð breyttum veruleika og fer nú fram rafrænt, enda eru hefðbundin opin hús eða viðburðir ekki í gangi.

Á hverjum degi er fjölbreytt dagskrá á vefsvæðinu Padlet, bæði fyrir miðstig og elsta stig. Þrautir, áskoranir, klúbbastarf og alls konar afþreying er í boði. Forvarna- og félagsmálaráðgjafar hafa þróað ýmsar lausnir til að hvetja til virkni ungmenna.

Nánar hér og á Facebook

 

Akureyringar - Hlaðvarp

Akureyringar, hlaðvarp Akureyrarbæjar, er aðgengilegt í helstu streymisveitum. Rætt er við alls konar fólk sem á það sameiginlegt að auðga samfélagið með einum eða öðrum hætti. Kynnumst fólki sem vinnur gott starf í þágu íbúa, skyggnumst bak við tjöldin, heyrum sögur og fræðumst um áhugaverð verkefni og þjónustu bæjarins.

Fjórir þættir eru komnir í loftið og eru meðal annars aðgengilegir hér. 

 

MenntaRÚV

Fræðsla og félagsskapur fyrir börn og ungt fólk á meðan samkomubanni stendur.

Heimavistin á MenntaRÚV er opin alla virka daga kl. 9-11, sérstaklega ætluð börnum á aldrinum 6-12 ára. Verksmiðjan er fyrir unglinga á aldrinum 13-16 ára. Núllstilling er nýr spjallþáttur úr smiðju RÚV núll, í beinni útsendingu kl.14-16 frá sviði Eldborgar í Hörpu. 

 

Landsmönnum boðið í leikhús

Boðið er til leikhúsveislu heima í stofu þar sem Þjóðleikhúsið þarf að fella niður sýningar í samkomubanni, en um leið er 70 ára stórafmæli leikhússins fagnað.

Á laugardags- og sunnudagskvöldum næstu vikurnar kl. 19:30 verða leiksýningar sýndar á RÚV2 og í spilaranum.

Nánari upplýsingar og dagskrá.

 

Tónleikar á Græna

N4 og Græni hatturinn færa þér tónleika heim í stofu. Úrvals tónlistarfólk stígur á stokk fyrir framan tóman sal en fullt af myndavélum. Tónleikarnir eru sýndir á föstudagskvöldum kl. 21 en þeir eru líka aðgengilegir hér. 

 

Tími til að lesa

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur hleypt af stokkunum lestrarverkefni fyrir þjóðina, þar sem börn og fullorðnir eru hvött til að nota til lesturs þann tíma sem gefst við núverandi aðstæður.

Fólk er hvatt til að skrá lestur á vefsíðunni timitiladlesa.is. Markmiðið er að setja heimsmet í lestri í apríl.

 

Páskaföndur

Páskaföndur með fjölskyldunni getur verið frábær skemmtun, róandi og skapandi. Nú ættu margir að hafa rúman tíma til að skreyta. Á internetinu eru fjölmargar hugmyndir að páskaföndri sem allir í fjölskyldunni geta gert saman. Stundum þarf að fara út í göngutúr og sækja efnivið (páskagreinar o.fl) og það er enn betra.

Hér er ein hugmynd að páskaföndri frá Rakel Hinriksdóttur hjá N4. 

Svo er alltaf hægt að nota hugmyndaflugið.

 

Siljan - myndbandasamkeppni

Allir geta búið til myndbönd og nú er rétti tíminn. Siljan 2020 er fyrir grunnskólanemendur í 5.-10. bekk og er markmiðið að efla lestraráhuga barna og unglinga.

Gerðu 2-3 mínútna myndband með umfjöllun um barna- / unglingabók gefna út á íslensku 2017-2019. Settu myndbandið á netið og sendu slóðina á barnabokasetur@unak.is - skilafrestur til 30. apríl.

 

Góð ráð í samkomubanni

 

Heilsuráð

Það er mikilvægt að vera vakandi fyrir andlegri og líkamlegri heilsu. Virkni okkar hefur til að mynda mikil áhrif á það hvernig okkur líður. Nú hefur mörgum verið kippt út úr sinni daglegri rútínu, félagslífi og vinnan hefur breyst og þá er hættan sú að virkni okkar minnki.

Mikilvægt er að:
-Fylla ekki daginn af hversdagslegum verkum eins og heimilisþrifum, setja í þvottavél, taka til og þess háttar. Eitt til tvö verk á dag nægir.

-Setja inn ánægjulegar athafnir eins og t.d. að sinna áhugamálum, spila, fara í gott bað, lesa góða bók og fleira.

-Muna eftir félagslegum athöfnum og samskiptum. Heyra í einhverjum í gegnum síma eða myndsímtal.

-Muna eftir því að hreyfa okkur daglega, borða næringarríkan mat og reyna að ná 6-8 tíma svefni. Eins og fram hefur komið þá er ýmislegt hægt að gera á Akureyri er tengist hreyfingu og útivist.

Að vinna heima

Nú eru margir komnir í fjarvinnu og þá er að mörgu að huga. Sumir eru jafnvel líka með börnin sín heima og það getur verið snúið að skipuleggja vinnuna og daginn sinn. Það er mikilvægt að sýna sjálfum sér þolinmæði í þessum aðstæðum og muna að við erum öll að reyna að gera okkar besta. Það er nauðsynlegt að muna eftir því að standa reglulega upp frá tölvunni, jafnvel kíkja út í stuttan göngutúr, hringja í vin eða vinnufélaga og spjalla í 10 mínútur.

Önnur góð ráð:
-Komdu þér upp vinnuaðstöðu. Það skiptir máli að koma sér upp góðri vinnuaðstöðu heima. Hafðu jafnvel góða stólinn úr vinnunni með þér heim. Að hafa sérstaka vinnuaðstöðu getur einnig hjálpað okkur að skilja að vinnuna og heimilislífið.

-Hafðu ákveðinn vinnutíma. Það er mikilvægt að við setjum okkur mörk varðandi vinnutímann. Að við gætum þess að standa reglulega upp, fara í hádegishlé og að við séum með ákveðinn tíma þar sem við hættum að vinna. Hættan er sú, þegar við erum heima, að vinnan gleypi allan daginn og teygi sig jafnvel inn í kvöldið. Láttu klukkuna hringja á þig á ákveðnum tímum dagsins og slökktu á vinnutölvunni í lok vinnudagsins.

-Hafðu rútínu. Haltu þig við þína venjulegu rútínu, eða eins nálægt henni og þú getur. Vaknaðu á sama tíma og vanalega, fáðu þér morgunmat og klæddu þig í vinnufötin. Það er sniðugt fyrir deildina/teymið að klukka sig inn í upphafi dags með stuttum fjarfundi. Í lok vinnudagsins er svo gott að skipta um föt til að stimpla sig út úr vinnunni og hefja heimilislífið. Munum að gefa okkur smá slaka og prufum okkur áfram og finnum það sem hentar okkur best.

Foreldraráð

Margvíslegt álag hvílir á foreldrum um þessar mundir. Margir foreldrar eru í flóknu hlutverki við að samræma vinnu inni á heimili, nám barna og samveru með fjölskyldunni. Á sama tíma glíma sumir við áhyggjur af heilsufari, efnahag og atvinnu.

Stjórnvöld og embætti landlæknis hafa tekið höndum saman við útgáfu góðra ráða til foreldra á tímum COVID-19 faraldursins. Foreldraráðin eru meðal annars unnin í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og UNICEF og eru aðgengileg á yfir 35 tungumálum. Nánar hér.

Síðast uppfært 08. apríl 2020