Stekkjarstaur kom fyrstur

Kæru jólaglöðu safngestir! 12 dagar til jóla og fyrsti jólasveinninn kom til byggða í nótt. Það var hann Stekkjarstaur.

Jóhannes úr Kötlum samdi ljóðið Jólasveinarnir sem kom fyrst út á prenti í kverinu Jólin koma árið 1932. Þá má segja að nútíma jólasveinahefð Íslendinga hafi verið komin í fastar skorður. Nöfn jólasveinanna komu fyrst á prenti í fyrstu útgáfu af Þjóðsögum Jóns Árnasonar og það er reyndar mjög fróðlegt að lesa sig til um þessa sveina.

Nú vill svo til að Amtsbókasafnið á Akureyri á í fórum sínum nokkur rit sem segja nánar frá jólunum og sveinunum. Við erum með jólatengd þemaborð í barnadeild og frammi á 1. hæð, en frekari fróðleik má finna t.d. í ritum eftir Árna Björnsson, Saga daganna og Saga jólanna.

Myndin sem fylgir þessari frétt er eftir Tryggva Magnússon en hann myndskreytti kvæði Jóhannesar sem áður er minnst á.

Stekkjarstaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék á bóndans fé.

Hann vildi sjúga ærnar,
- þá varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
- það gekk nú ekki vel.

Í sýningarkassa á 1. hæð (gegnt afgreiðslunni) má líka sjá gullfallegar styttur af öllum jólasveinunum, Grýlu, Leppalúða og jólakettinum. Þetta var gjöf frá Jólagarðinum í Eyjafirði fyrir þó nokkrum árum. Svo eru komnar upp fallegar skreytingar, ljós og jólatré sem gerir bókasafnið okkar allra að yndislegum stað til að vera á - og að við tölum nú ekki um umhverfisvænu pökkunarstöðina okkar hjá arineldinum góða. Jólakortagerð á næstunni, málun á piparkökum ... það er alltaf eitthvað um að vera hjá okkur!

Sjáumst hó hó hó á Amtsbókasafninu!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan