Algengar spurningar

Hægt er að skila gögnum bókasafnsins í Pennanum Eymundsson utan afgreiðslutíma þess. Afgreiðslutími Pennans er 9-21 virka daga og 10-21 um helgar.

1. Hvar fæ ég bókasafnsskírteini?

Bókasafnsskírteinin eru gerð í afgreiðslu safnsins og það tekur stuttan tíma að fá þau afgreidd.

2. Hverjir mega fá skírteini?

Allir eiga rétt á því að fá skírteini. Ef þú ert 15 ára eða yngri þarf forráðamaður þinn að fylla út eyðublað þar sem hann tekur ábyrgð á öllu því safnefni sem tekið er út á skírteinið þitt. Ef þú ert eldri en 15 ára þarf ekki að fylla út neitt eyðublað.

3. Hvað kostar skírteinið?

Fyrsta skírteinið kostar ekkert en ef það týnist þarf að greiða 2.000 kr. fyrir nýtt. Lánþegar sem ekki eiga lögheimili í Akureyrarkaupstað greiða 4.000 kr. árgjald. Það eru þrjár einfaldar reglur sem gott er að hafa að leiðarljósi:

  •  Skilaðu safnefninu á réttum tíma
  •  Skilaðu safnefninu í góðu ásigkomulagi
  •  Ekki lána kortið þitt nema þú sért tilbúin(n) að taka ábyrgð á því

4. Hversu langur er gildistími skírteinis?

Það er ekkert árgjald á skírteinum fyrir þá sem eiga lögheimili í Akureyrarkaupstað og gildistíminn er ótakmarkaður. Aðrir þurfa að greiða 4.000 kr. árgjald. Því er mikilvægt að passa upp á skírteinið. Ef það týnist þarf að greiða fyrir nýtt.

5. Hvað ef ég týni skírteininu mínu?

Ef skírteinið þitt týnist eða því er stolið þarftu að láta okkur vita svo við getum komið í veg fyrir að kortið sé notað. Það þarf alltaf að greiða 2.000 kr. fyrir nýtt skírteini og það skiptir engu máli hvort því hefur verið stolið eða það týnst.

6. Þarf ég að láta vita um breytt heimilisfang/aðsetur og símanúmer?

Bókasafnskerfið er tengt við þjóðskrá og því gildir það heimilisfang hverju sinni. Hægt er að láta skrá hjá sér annað aðsetur en lögheimili og fá tilkynningar sendar þangað.

7. Hversu mikið má fá lánað á skírteinið í einu?

Í raun er engin hámarkstala. Miðaðu bara við það hversu mikið þú telur þig geta lesið/horft í einu. Þú borgar ákveðna sekt fyrir hvert gagn sem þú getur ekki skilað á réttum tíma sem þýðir að því fleiri gögn þeim mun hærri sekt.

8. Þarf ég alltaf að hafa skírteinið með þegar ég fer á bókasafnið?

Þú þarft alltaf að koma með skírteinið ef þú ætlar að fá eitthvað lánað. Ef þú ætlar að framlengja lán á safnefni eða skila þarftu ekki að koma með skírteinið.

9. Má ég lána skírteinið mitt?

Það er á þína ábyrgð hvað þú gerir við þitt skírteini. Ef safnefni kemur of seint inn, skemmist, eyðileggst eða lendir í innheimtuaðgerðum hjá innheimtustofnunum þá ert það þú sem þarft að bera skaðann af því en ekki manneskjan sem fékk kortið þitt lánað.

10. Hversu lengi má vera með safngögn að láni?

Bækur, hljóðbækur, geisladiskar, margmiðlunardiskar, spil og tímarit eru yfirleitt lánuð í 30 daga en nýjar bækur eru stundum lánaðar í 14 daga (það efni er auðkennt með miða á kápu). Allir mynddiskar eru lánaðir í 7 daga.

11. Hvað ef ég get ekki greitt sekt á safnefni sem ég á að vera búin(n) að skila?

Skilaðu safnefninu eins fljótt og hægt er svo það komi ekki frekari sekt á það. Þegar safnefni er skilað hætta sektirnar að hækka. Aðrir lánþegar geta þá fengið safnefnið lánað og þú getur greitt inn á skuldina eftir hentugleika eða greitt hana alla í einu þegar þú átt pening. Upplýsingar um skuldina eru skráðar hjá okkur.

12. Hvað gerist ef ég skila aldrei þeim safngögnum sem ég er með að láni?

Það kemur sekt á allt safnefni ef því er ekki skilað á réttum tíma og eru hámarkssektir misháar eftir safnefni. Ef þú skilar ekki safnefni þrátt fyrir að fá sendar rukkanir ferðu sjálfkrafa í bann hjá okkur og að lokum er krafan send í innheimtu hjá Motus.

13. Hvenær telst safnefni skilað?

Þú berð ábyrgð á safnefninu þar til því hefur verið skilað í sjálfsafgreiðsluvélum eða í gegnum tölvukerfi safnsins. Það er ekki nóg að þú skiljir það eftir á afgreiðsluborðinu og segir starfsfólki frá því að þú sért að skila. Öruggast er að bíða á meðan verið er að skila safnefninu og fá staðfestingu á því að allt sé komið í gegn. Við mælum þó með að þú notir sjálfsafgreiðsluvélarnar.

14. Hvað ef hundurinn minn eyðileggur bók?

Þú berð ábyrgð á öllu safnefni sem er á þínu skírteini og því þarf að skila í sama ástandi og þú fékkst það í. Ef safnefni eyðileggst hjá þér þarft þú að bæta fyrir það með samskonar efni eða greiða staðlaða upphæð sem þú getur fengið uppgefna hjá starfsfólki bókasafnsins. Hafðu samband við okkur, láttu okkur vita hvað gerðist og við leysum málið í sameiningu.

15. Er hægt að fá lán á safnefni framlengt?

Hægt er að fá framlengingu í afgreiðslu bókasafnsins, annað hvort með því að koma á staðinn eða hringja. Lánþegar sem skrá sig á amt.leitir.is eiga möguleika á að framlengja sjálfir í gegnum netið. Ekki er hægt að framlengja hvert safngagn fyrir sig oftar en þrisvar. Ekki er hægt að fá framlengingu ef annar lánþegi bíður eftir safnefninu. Vinsamlegast framlengið safnefni áður en það lendir í vanskilum. Ef safnefni er komið fram yfir skiladag þegar það er framlengt þarf að greiða sekt.

16. Hvað ef ég finn ekki safnefnið þegar ég ætla að skila því?

Ef safnefni er ekki skilað á réttum tíma reiknast sekt á það. Best er því að fá safnefnið framlengt svo þú hafir meiri tíma til að leita. Ef það finnst ekki er hægt að koma með sambærilegt safnefni í staðinn eða greiða staðlaða upphæð og þá er málið úr sögunni.

17. Er til hljóðlát aðstaða til lestrar, náms og ýmissa verkefna?

Lestraraðstaða er á 2. hæð og er öllum opin en ekki er gerð krafa um grafarþögn þó að meginreglan sé að ekki sé mikið skrafað þar uppi.

18. Er aðstaða fyrir hópavinnu?

Hópar geta notfært sér borð og stóla í kaffisalnum og einnig eru hópavinnuborð uppi á 2. hæð.

19. Hvað kostar aðgangur að internetinu?

Allir geta fengið aðgang að internetinu á bókasafninu. Fyrst er rétt að minnast á opinn netaðgang bókasafnsins, svo ef þú kemur með þína eigin tölvu hefur þú frjálsan og frían aðgang að internetinu. Ef þú kemur ekki með eigin tölvu getur þú samt komist á netið í tölvunum sem eru í kaffisalnum. Ef þú ert með þitt bókasafnskort þarftu ekki að greiða fyrir klukkutíma - bara framvísa bókasafnskortinu. Ef þú ert ekki með bókasafnskort þá kostar klukkutíminn 600 kr. og hálftíminn 350 kr.

20. Er hægt að prenta út?

Það er hægt að senda það sem þarf að prenta út á netfangið prentun@amtsbok.is eða að koma með usb-kubb. Einnig er hægt að fá aðgang að tölvu á staðnum (sjá lið 19). Hver útprentuð A4-síða kostar 50 kr. (150 kr. í lit) og A3 kostar 70 kr. (200 kr. í lit).

Síðast uppfært 02. janúar 2024