Fantasíudeildin

Fantasíudeildin okkar hefur vakið verðskuldaða athygli.

Rithöfundurinn og leikarinn ástsæli Ævar Þór Benediktsson sagði í viðtali við heimasíðuna í byrjun febrúar 2022 að „Amtið væri með bestu teiknimyndasögudeild á landinu og þótt víðar væri leitað.“ Við þökkum honum kærlega fyrir þessu hlýlegu orð og viljum endilega að fólk fái frekari kynningu á deildinni, sem í daglegu tali kallast fantasíudeild.

Umsjónarmaður hennar er Hörður Ingi Stefánsson og safngestir grípa ekki í tómt með því að rabba við hann um vísindaskáldsögur og allt það sem í deildinni finnst. Henni er í grófum dráttum skipt upp í þrjá hluta: vísindaskáldsögur, teiknimyndasögur fyrir fullorðna og svo manga-bækurnar. Vísindaskáldsögunum er raðað upp í stafrófsröð eftir nöfnum höfunda, teiknimyndasögunum flestum er raðað upp eftir seríunum (Garfield, Spider-Man, Superman ... o.s.frv.) og til hægðarauka höfum við aðgreint „erkifjendurna“ DC og Marvel. Manga-bækurnar eru svo líka í röð eftir seríu-heitum.

 

Mynd úr manga-hluta fantasíudeildar Amtsbókasafnsins, sjást þarna bækur í hillum og svo sófi á gólfinu

Standur með nýjum vísindaskáldsögum Hillurekkar með DC og Marvel teiknimyndasögum, raðað upp eftir heitum sería

Flettirekkar með nýjum teiknimyndasögum fyrir fullorðna

Margar vinsælar kvikmyndir og sjónvarpsþættir sækja efniviðinn í vísindaskáldsögur, fantasíur og teiknimyndasögur fyrir fullorðna. „Bókin er betri...“ heyrist oft í því tilefni og við reynum eftir fremsta megni að hafa fjölbreytt efni þarna, eins og annars staðar í safninu. Frank Herbert, George R.R. Martin, Stan Lee, Jack Kirby, Tite Kubo og fleiri njóta góðs af því að bækur þeirra eru myndaðar því þetta eru vinsælir höfundar í dag.

Mynd af leikaranum Henry Cavill í þremur hlutverkum: Witcher, Stardust og Superman.Fleiri höfundar sem hafa séð verk sín kvikmynduð eru Neil Gaiman, Terry Pratchett, Douglas Adams og Andrzej Sapkowski. Fyrst við minnumst á Andrzej, höfund Witcher-bókanna, má minnast á þann skemmtilega fróðleik að leikarinn Henry Cavill lék titilhlutverkið í samnefndri seríu (seríur 1-3) á Netflix (reyndar heitir persónan hans Geralt en er almennt kallaður Witcher). Henry hefur líka leikið hlutverk Ofurmennisins (Superman) sem Jerry Siegel og Joe Shuster sköpuðu, og Henry sást einnig nokkrum sinnum í kvikmyndinni Stardust sem er byggð á samnefndri bók eftir Neil Gaiman.

Hvaða leikari ætli hafi leikið flest hlutverk sem sköpuð hafa verið í verkum sem finna má í fantasíudeildinni?

Kíkið endilega í þessa deild, þið verðið ekki svikin af því!

Síðast uppfært 09. janúar 2023