Stefna Amtsbókasafnsins

Gildismat

Við greiningu á gildismati var kannað hvað starfsfólki finnst að Amtsbókasafnið standi fyrir. Einnig var leitað eftir tilllögum frá viðskiptavinum safnsins og þeim boðið að leggja orð í belg. Gildi eru sótt í hefðir og menningu og endurspegla þau gildi sem safnið í heild sinni stendur fyrir.

Gildin eru hér sett fram í eftirfarandi orðum:

 • Þjónusta
 • Þekking
 • Þægindi
 • Þróun
 • Þinn staður

Þjónusta endurspeglar vilja okkar og getu til að veita gestum okkar góða þjónustu og áherslu á jákvæð samskipti við alla.

Þekking endurspeglar vilja okkar til að auka þekkingu í samfélaginu með aðgangi að fjölbreyttum safnkosti og fjölhæfu starfsfólki

Þægindi endurspegla gott aðgengi, góða vinnuaðstöðu, gott andrúmsloft, notalegt viðmót og hlýlegt og notendavænt umhverfi.

Þróun endurspeglar nýsköpun og breytingar í starfsemi safnsins. Bókasafnið gefur almenningi í auknum mæli tækifæri til að vaxa og dafna, læra og skapa, upplifa og taka þátt í samfélaginu. Safnið er rými fyrir fólk sem leggur rækt við eigin vöxt og þroska.

Þinn staður endurspeglar að hér eru allir velkomnir. Við viljum að öllum líði vel á safninu og að hingað geti fólk sótt þekkingu, afþreyingu eða einfaldlega góðan samastað.

Hlutverk

Amtsbókasafnið á Akureyri:

 • Er bókasafn og samverustaður fyrir almenning. Það er þjónustustofnun sem starfar í þágu almennings og ekki rekið í hagnaðarskyni. Hlutverk bókasafna er að jafna aðgengi að menningu og þekkingu. Áhersla skal lögð á að safnkostur bókasafna endurspegli sem flest sjónarmið.
 • Vill vera í fararbroddi meðal almenningssafna á landinu
 • Er almenningsbókasafn og varðveislusafn skv. lögum og veitir aðgang að öllu prentuðu efni útgefnu á Íslandi (Annars vegar eru það Bókasafnalög nr. 150 frá 28. desember 2012 og svo Lög um skylduskil til safna, nr. 20 frá 20. mars 2002)
 • Veitir almenningi bókasafns- og upplýsingaþjónustu og aðgang að vinnuaðstöðu, sýningarrými og afþreyingu. Markmiðið er að veita aðgang að fjölbreyttu safnefni og upplýsingum á mismunandi formi. Amtsbókasafnið vill efla menningar- og vísindastarfsemi, menntun, símenntun, atvinnulíf, íslenska tungu, ánægjulestur og upplýsingalæsi.
 • Miðlar upplýsingum á eigin vef og í safnkerfum á landsvísu s.s. á leitir.is

Framtíðarsýn

Framtíðarsýn Amtsbókasafnsins er að vera með trausta stöðu í samfélaginu og í samfélagi almenningssafna á Íslandi. Amtsbókasafnið hefur jákvæða ímynd í samfélaginu og leggur áherslu á að styrkja hana enn frekar til framtíðar.

Markmið

Amtsbókasafnið hefur sett sér tvö meginmarkmið og nokkur deilimarkmið til þess að ná framtíðarsýn sinni:

1. Að vera sterk heild og framúrskarandi þjónustuaðili í Akureyrarbæ

 • Með góðri þjónustu og góðu starfsfólki fáum við ánægða viðskiptavini
 • Með góðu aðgengi og hlýlegu umhverfi sækir fólk safnið sér til yndis og ánægju
 • Með fjölbreyttum safnkosti getum við boðið eitt og annað fyrir breiðan hóp fólks
 • Með löngum afgreiðslutíma aukum við möguleika fólks til að nýta sér safnið

2. Að vera í fararbroddi almenningssafna á Íslandi

 • Með því að vera vakandi fyrir tækninýjungum og innleiðingu þeirra í starfsemi bókasafna
 • Með því að efla samstarf við önnur söfn og stækka tengslanet hérlendis og erlendis
 • Með því að stuðla að nýsköpun í þjónustu og útvíkkun á hlutverkum almenningssafna
 • Með því að ráða til sín fjölhæft starfsfólk með breiða þekkingu og leggja áherslu á símenntun

 

Síðast uppfært 06. apríl 2017