Saga Amtsbókasafnsins á Akureyri

Nær 200 ára gömul stofnun á húsnæðishrakningi í 140 ár

Amtsbókasafnið á Akureyri er nær 200 ára gömul stofnun. Eftir að hafa verið á húsnæðishrakningi í 140 ár fékk safnið loks viðunandi húsnæði við Brekkugötu 17 sem síðan hefur stækkað og er allt hið glæsilegasta. 

Gömul mynd af Amtsbókasafninu

Segja má að saga safnsins hefjist árið 1791 þegar Stefán Þórarinsson amtmaður stofnaði Hið norðlenska lestrarfélag. Það félag lagðist af en Grímur Jónsson, amtmaður á Möðruvöllum í Hörgárdal, tók við keflinu og stofnaði Eyfirska lesfélagið árið 1825. Tveimur árum síðar, árið 1827, var Amtsbókasafnið formlega stofnað.

Helsti bókakostur safnsins voru bækur úr Hinu norðlenska lestrarfélagi og bókagjafir sem margar hverjar komu frá Danmörku. Fyrsti amtsbókavörðurinn vann kauplaust og skaut jafnframt skjólshúsi yfir safnið. Þetta var Andreas Mohr sem bjó í Hafnarstræti 11, húsi sem nú er jafnan kallað Laxdalshús. Það er elsta hús Akureyrar.

Eftir að Mohr hætti sem amtsbókavörður var safnið á hrakhólum. Ekki rættist úr fyrr en 1849. Næsti viðkomustaður safnsins var Aðalstræti 40 þar sem safnið var í tíu ár. Það var um tíma einnig í Aðalstræti 46 og var loks flutt í nýtt þing- og varðhaldshúsi Akureyrarkaupstaðar í Búðargili árið 1875. Húsið var neðst í gilinu en það stendur ekki lengur. Friðbjörn Steinsson varð bókavörður.

Lengi vel voru notendur fáir, aðeins um 20 til 30 fastagestir komu reglulega á safnið. Árgjald til lántöku bóka voru tvær krónur, sem námu um dagslaunum verkamanns á þeim tíma. Bókakosturinn var ekki við allra hæfi, sér í lagi ekki almennings en fæstar bókanna voru á íslensku. Mest var um bækur á dönsku en einnig voru bækur á þýsku, grísku og latínu. Árið 1894 var ákveðið að lána bækur endurgjaldslaust og við það jókst lestur mikið. Árgjaldið hafði fælt almenning frá mun meira en gert var ráð fyrir. Allar götur síðan þá hefur verið endurgjaldslaust fyrir bæjarbúa að fá lánaðar bækur.

Akureyrarkaupstaður eignaðist Amtsbókasafnið árið 1905 með ákveðnum skilyrðum

Kaflaskil urðu í sögu safnsins þegar Akureyrarkaupstaður eignaðist það árið 1905. Kaupstaðurinn eignaðist safnið með því skilyrði að byggt yrði utan um það eldtraust geymsluhús auk lestrarstofu en mörg ár liðu þar til það varð að veruleika.

Safnið var um þetta leiti í Samkomuhús bæjarins. Þar var þó opnuð lesstofa í fyrsta sinn í sögu safnsins. Samkvæmt gestabókum voru námsmenn tíðir gestir á safninu sem og kennarar. Nokkrir gegndu stöðu amtsbókavarðar. Þekktastur er Davíð Stefánsson, skáld frá Fagraskógi, sem hóf þar störf árið 1925 og gegndi hann embættinu í 27 ár.

Árið 1930 var safnið flutt Í Hafnarstræti 53, gamla barnaskólann á Akureyri. Davíð bjó einnig í húsinu á þeim tíma. Þá var fólki farið að leiðast flutningar safnsins fram og til baka og árið 1933 vakti Matthíasarnefnd Stúdentafélags Menntaskólans athygli á því að 100 ára afmæli Matthíasar Jochumsonar þjóðskálds nálgaðist og tilvalið væri að byggja hús undir safnið af því tilefni. Sigurður Guðmundsson skólameistari og Steindór Steindórsson kennari sátu fund með byggingarnefnd Akureyrarbæjar og báru upp erindið.

Samþykkt var að hefja undirbúning að byggingu safnahúss sem átti að bera nafnið Matthíasarbókhlaða. Auk þess sem húsið átti að vera bókhlaða bæjarins var einnig gert ráð fyrir að í framtíðinni yrði þar náttúrusafn og listasafn.

Efnt var til samkeppni um teikningu að húsinu og hlutu tveir ungir arkitektar 1. verðlaun, þeir Bárður Ísleifsson og Gunnlaugur Halldórsson. Ákveðið var að húsið skyldi standa við Brekkugötu en einnig kom til greina að fá lóð á milli Hafnarstrætis og Bjarmastígs skammt frá ráðhústorginu.

Byggingu nýs húsnæðis frestað vegna fjárskorts

Þegar hófst fjársöfnun fyrir byggingunni. Húsið átti að kosta 110 þúsund krónur en þar sem 10 til 15 þúsund krónur vantaði upp á þótti ekki ráðlegt að taka lán og ráðast strax í framkvæmdirnar. Þess í stað var fjárfest í húsi við Hafnarstræti 81 þar sem bókasafnið var í 20 ár, uppi á 2. hæð. Það hús stendur við Sigurhæðir Matthíasar Jochumsonar.

Eftir að Árni Jónsson tók við sem safnvörður árið 1960 jukust vinsældir safnsins. Árni stóð fyrir breytingum, meðal annars jók hann aðgengi með því að setja bækur í opnar hillur þannig að fólk gat tekið sér nægan tíma í að velja sér bækur í stað þess að fá þær afhendar yfir afgreiðsluborðið. Árni lengdi einnig opnunartíma safnsins til muna, það hafði aðeins verið opið einn til þrjá daga í viku en Árni opnaði safnið alla virka daga, fyrst um sinn frá 14 til 19. Enn jókst aðsóknin, hún tvöfaldaðist fljótlega og rúmlega það.

Nýtt varanlegt húsnæði

Tveimur árum áður en Árni tók við, hafði Bæjarstjórn Akureyrar samþykkt að byggja loks hús fyrir safnið í tilefni 100 ára afmælis Akureyrarbæjar árið 1962. Leitað var til arkitektanna sem unnu samkeppnina 1935 og lögðu þeir fram alveg nýja og nútímalega hugmynd að bókhlöðu sem jafnframt var mun stærri en gamla tillagan. Það var 29. júní árið 1963 að nýja tillagan var samþykkt eftir bollaleggingar fram og til baka á fundum byggingarnefndarinnar.

Flestir voru ánægðir með breytinguna sem gerð var á húsinu frá teikningunum árið 1933. Þó ekki Davíð Stefánsson. Hann lét bóka í fundargerð sem sést hér að "eins og nefndarmenn vita hef ég alltaf verið því andvígur að flatt þak sé haft á bókhlöðunni og svo er einnig um meginhluta bókasafnsnefndar og flestalla bæjarmenn sem ég hef talað við um mál þetta." Davíð sagði einnig: "Ég vil að það sé ljóst öllum aðilum að öll þessi ár sem ég hef beitt mér fyrir smíði nýrrar bókhlöðu, hef ég vænst þess, fyrir hönd bæjarbúa, að hér rísi listræn og fögur bygging, en ekki hús í hversdagslegum kassastíl." Davíð var sannspár hvað þakið varðaði. Það hefur oft valdið vandræðum en flestir eru sammála um að húsið sé fallegt.

Hið nýja húsnæði var vígt þann 9. nóvember árið 1968 við hátíðlega athöfn. Bjarni Einarsson bæjarstjóri tók á móti byggingunni fyrir hönd Akureyrarbæjar með stuttri ræðu.

Eftir það voru meðal annars flutt ávörp og bæjarbúum var boðið að skoða húsið sem Morgunblaðið kallaði veglegasta, vandaðasta og glæsilegasta hús sinnar tegundar á Íslandi.

Safnið var gríðarleg búbót fyrir Akureyrarbæ og naut strax mikilla vinsælda. Lánþegum fjölgaði og safnkosturinn margfaldaðist.

Sívaxandi safnkostur kallaði á viðbyggingu

Nokkrum áratugum síðar hafði starfsemin enn sprengt utan af sér húsnæðið. Amtsbókasafnið er annað af tveimur skylduskilabókasöfnum á Íslandi sem þýðir að það á að minnsta kosti eitt eintak af öllum bókum sem prentaðar eru á Íslandi fara til safnsins. Þetta er gríðarlega mikið magn á hverju ári og því er safnkosturinn fljótur að stækka. Þrengslin í bókhlöðunni voru yfirþyrmandi og safnið varð að taka á leigu húsnæði í bænum til að geyma bækur og blöð sem minna voru notuð. Auk þess stækkaði skjalasafnið óðum. Árið 1987 var ákveðið að byggja við safnið og efnt var til samkeppni um viðbygginguna.

Alls bárust 25 tillögur en Guðmundur Jónsson arkitekt hlaut heiðurinn. Í úrskurði dómnefndar segir að hann hljóti 1. verðlaun fyrir frábæra byggingarlist. Tillaga hans hafi verið snilldarleg aðlögum að núverandi húsi í hlutföllum, meðferð einstakra flata og efnisvali. Markmið höfundar, að túlka á stílfærðan hátt meginhugsun að baki núverandi húsi, skili sér á sanfærandi hátt í nýbyggingunni. Glæsileiki einkenni útlit byggingarinnar í fullu samræmi við núverandi hús. Dómnefndin var sammála í öllum atriðum um hvaða tillaga var best en hana skipuðu Gunnar Ragnars, forseti bæjarstjórnar, Sigríður Stefánsdóttir bæjarfulltrúi, Ágúst Berg, húsameistari Akureyrarbæjar og þeir Björn Halldórsson og Ormar Þór Guðmundsson frá Arkitektafélagi Íslands.

Akureyrarbær sá fyrir sér að Amtsbókasafnið ætti að verða nokkurskonar menningarsetur bæjarins þegar ákveðið var að byggja við safnið. Gert var ráð fyrir fjölnýtisal í húsinu þar sem átti að vera svið fyrir litlar leiksýningar og tónleika. Einnig átti að vera myndlistarsalur í húsinu.

Eftir nokkurra ára hönnunarvinnu eftir upphaflegu tillögunni var niðurstaða Akureyrarbæjar að endurskoða verkefnið. Niðurstaðan var að Guðmundur hannaði húsið aftur út frá vinningstillögu sinni.

Í úrskurði dómnefndar segir meðal annars að tillaga Guðmundar sameini núverandi hús og nýbyggingu í listræna heild án þess að núverandi hús glati nokkru af sérkennum sínum. Enn leið langur tími þar til framkvæmdir hófust en það var árið 2001. Viðbyggingin var svo tekin í notkun í byrjun mars árið 2004.

Amtsbókasafnið er andans orkuver

Í ræðu sinni við vígslu viðbyggingar Amtsbókasafnsins sagði Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri meðal annars að Amtsbókasafnið gegni lykilhlutverki í fjölgun bæjarbúa, því menntun, menning og þjónustuþættir sveitarfélaga ráði miklu um það hvar fólk vill búa. Bókasöfn hafi gjarnan verið kölluð háskóli alþýðunnar en í nútímasamfélagi þjóni þau ekki síður hlutverki eins konar akbrautar út á upplýsingahraðbrautina og opna íbúum sveitarfélagsins greiða leið að nútímanum. Kristján kallaði Amtsbókasafnið einnig andans orkuver og sagði að það auki lífsgæðin, styrkti lýðræðið, efldi andann, bæti frítímann og er því í kraftmiklum samhljómi við kjörorð bæjarins : Akureyri, öll lífsins gæði.

Frá því Amtsbókasafnið komst í viðunandi húsnæði árið 1968 hefur starfsemin vaxið og dafnað jafnt og þétt. Þar er nú góð aðstaða til tölvunotkunar og einnig sýningaraðstaða og veitingastaður. Þá hýsir safnahúsið Héraðsskjalasafn Akureyrar.

Amtsbókasafnið, elsta stofnun Akureyrar, á traustan sess í bæjarlífinu og hafa vinsældir þess aukist meðal ungra sem aldinna ár hvert. Safnið fylgist vel með nýjungum og það breytist í takt við tíðarandann en það mun halda áfram að bjóða gesti sína velkomna eftir besta megni, eins og alltaf, um ókomin ár.

 

Ljósmynd: Erlingur Davíðsson/Minjasafnið á Akureyri

Texti: Hjalti Þór Hreinsson
hjaltihreinsson@gmail.com

 


                                                                                                                                                                       

Síðast uppfært 27. desember 2022