Íslenskuklúbburinn og borðspilið B.Eyja

Laugardaginn 29. apríl var haldin viðburður til þess að prófa borðspilið B.Eyja sem er í vinnslu hjá höfundunum Fan Sissoko og Helen Cova. Þær komu til Akureyrar til að kynna spilið fyrir fólki sem er að læra íslensku og fá endurgjöf á það. Þátttakendum fannst skemmtilegt að prófa borðspilið því það vantar fjölbreytt efni fyrir fólk sem er að læra tungumálið. Markmið spilsins er að æfa sig, vinna saman og auka sjálfstraust til að nota íslensku í daglegu lífi. Þó að maður segi eitthvað vitlaust er það í lagi, maður verður bara að prófa sig áfram.

Að lokum var gerð könnun meðal þátttakenda sem sýndi að þau voru almennt ánægð með spilið og væru alveg til í að spila það aftur. Að minnsta kosti helmingur þátttakenda væri til í að eignast svona spil og nota með vinum eða fjölskyldu. Nokkrum fannst tilvalið að geta fengið spilið lánað eða spila á bókasafninu.

Til þess að auka æfingamöguleika sýndu þátttakendur áhuga á að hafa fleiri borðspil, sérstaklega fyrir byrjendur í íslensku og hafa líka gott úrval af léttlestra bókum fyrir fullorðna. Þeim fannst gott að prófa eitthvað sem minnir ekki á kennslustund, að læra á skemmtilegan og afslappaðan hátt.

Við höldum áfram að eiga gott samtal við þátttakendur í íslenskuklúbbnum og hvetjum þau til að koma til okkar með hugmyndir um fleiri fjölbreyttar og skemmtilegar leiðir til þess að æfa tungumálið.

Í sumar höldum við áfram með íslenskuklúbb í samstarfi við Rauða Krossinn. Frá og með 1. júní er íslenskuklúbburinn haldinn vikulega á Amtsbókasafninu kl. 16:30 á fimmtudögum!

Mynd af borði með spili og leiðbeiningum

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan