Zine-smiðja á bókasafninu!

Komdu og gerðu bókverk: Zine-smiðja á bókasafninu!
Þann 5.ágúst verður zine smiðja á Amtsbókasafninu kl. 16:30. Á staðnum verða gömul tímarit, bækur, pappír, pennar, skæri, lím og allt tilheyrandi til þess að skapa lifandi og spennandi bókverk. Öllum þátttakendum býðst að gefa Amtsbókasafninu sitt zine og verða þau þá skráð á safninu og til útláns fyrir áhugasama. Þetta er frábært tækifæri til þess að taka þátt í starfi bókasafnsins með beinum hætti ásamt því að það er alltaf gaman að hittast og skapa.

Aðeins um zine:
Zine eru lítil tímarit eða bókverk, oftast handgerð og fjalla gjarnan um eitt efni eða þema. Það er algengt að tímarit og dagblöð séu endurnýtt í zine-gerð og að notast sé við ódýran og auðfundinn efnivið. Þau geta verið stór eða pínulítil, geta samanstaðið af texta, ljósmyndum, teikningum eða úrklippum. Þau geta verið hápólitísk eða einfaldlega grín, það er undir hverjum og einum komið. Það er hægt að gera zine um hver á ljótustu tærnar á heimilinu jafn einfaldlega og það getur snúist um ketti, bókmenntir eða aktívisma.

 

Smiðjan verður á Orðakaffi og er opin öllum aldri en yngri börn eru vinsamlegast beðin um að koma í fylgd með fullorðnum.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Viðburðinn má einnig finna á Facebook og Instagram.

Fyrir frekari upplýsingar hafið samband við karolinaro@amtsbok.is.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan