Bókarkynning: Skriftamál einsetumannsins

BÓKARKYNNING

Skriftamál einsetumannsins, eftir Sigurjón Friðjónsson
Amtsbókasafninu á Akureyri, 11. nóvember 2017, kl. 14.00

Hinn 22. september sl. voru 150 ár liðin frá því Sigurjón Friðjónsson, skáld og bóndi á Litlulaugum í Reykjadal, Suður-Þingeyjarsýslu, fæddist á Sílalæk í Aðaldal. Af því tilefni kom út önnur prentun af annarri útgáfu bókar hans Skriftamálum einsetumannsins. Bókin kom fyrst út á Akureyri 1929 en var endurútgefin af Hinu íslenska bókmenntafélagi 1999. Páll Skúlason prófessor skrifaði formála að þeirri útgáfu og Ragnhildur Richter eftirmála um verkið.
Skriftamál einsetumannsins eru tilraun til að tjá með ljóðrænum hætti hinar „ósegjanlegu“ tilfinningar fyrir veruleikanum, tilfinningar sem spretta af því að maðurinn er hugsandi vera: í senn vitni að því hvernig tilveran opinberast honum og þátttakandi í þeim undrum og öflum sem þar er að finna.

Sigurjón bjó fyrst á Sandi í Aðaldal, þá á Einarsstöðum í Reykjadal en lengst á Litlulaugum eða frá 1913 til 1942. Hann var lengi oddviti Reykdælahrepps og einn af forvígismönnum Kaupfélags Þingeyinga. Þá var hann landskjörinn alþingismaður 1918–1922. 
Sigurjón var þekktur fyrir skáldskap sinn í nýrómantískum anda, sem hann tók að birta í blöðum og tímaritum um og upp úr aldamótunum 1900. Safn ljóða hans kom fyrst út í Ljóðmælum árið 1928. Sigurjón orti og þýddi ljóð, samdi smásögur og skrifaði greinar um bókmenntir, félagsmál og stjórnmál.

Úlfar Bragason segir frá ritstörfum Sigurjóns og Pétur Halldórsson les upp úr Skriftamálum einsetumannsins.

Allir hjartanlega velkomnir!

(Nánari upplýsingar veitir Úlfar Bragason rannsóknarprófessor, Stofnun Árna Magússonar í íslenskum fræðum. Sími 562 6050. Netfang ulfarb@hi.is)

 

Amtsbókasafnið er á Facebook og Instagram.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan