Hvað er að frétta af Hlíðarfjalli?

Mynd eftir Óskar Wild Ingólfsson tekin 23. desember 2020.
Mynd eftir Óskar Wild Ingólfsson tekin 23. desember 2020.

Ritstjórn starfsmannavefs kynnir til leiks nýjan fréttalið. Hvað er að frétta? Skemmtilegar fréttir frá stofnunum bæjarins munu birtast reglulega hér á vefnum ykkur til gamans. Að þessu sinni sendi Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls, okkur fréttir af starfsemi Hlíðarfjalls og það er ljóst að það er kominn opnunarfiðringur í starfsfólk Hlíðarfjalls og landsmenn alla.

Starfsfólk Hlíðarfjalls er í óða önn að undirbúa komandi skíðavertíð, þó með breyttu sniði í ár. Sökum fjöldatakmarkana þá er einungis gönguskíðabrautin opin almenningi og lyftur opnar fyrir Skíðafélag Akureyrar (SKA). Nóg hefur verið um snjó sem er fagnaðarefni því margir hafa verið að byrja að stunda skíðagöngu og hefur verið mikil aðsókn í skíðagöngubrautina.

Fyrir SKA höfum við náð að opna bæði Hólabraut og Hjallabraut og hafa þjálfarar SKA getað þjálfað mismunandi aldurshópa innan leyfilegra fjöldatakmarkana. Má segja að þó að Hlíðarfjall hafi ekki opnað fyrir almenning fyrir alpaskíðaiðkun þá hefur starfsfólkið haft í nógu að snúast við að vinna brautir og brekkur fyrir þá hópa sem mega stunda fjallið.

Jafnt á við vinsældir gönguskíða þá hafa fjallaskíði verið fyrirferðamikil hér í brekkunum yfir hátíðirnar og gríðarlega margir á fjallaskíðum á svæðinu sem er einnig ánægjulegt. Þó myndum við vilja að fjallaskíðafólk væri ekki að ganga mikið upp fjallið í nálægð við lyfturnar.

Við fáum mikið af fyrirspurnum hvaðan æva af landinu um hvenær hægt sé að koma norður á skíði og ljóst að margir landsmenn hafa hug á að heimsækja Akureyri til að koma og verja gæðastund með vinum og vandamönnum á skíðum, hvort sem er gönguskíði eða alpaskíði. Einnig fáum við mikið af fyrirspurnum frá fyrirtækjum sem bjóða upp á gistinætur á Akureyri og í nágrenni sem eru að bjóða upp á þjónustu sína fyrir aðila sem hafa áhuga á allskonar vetrarsporti.

Starfsmenn finna fyrir því að Hlíðarfjall er mikið aðdráttarafl fyrir þá sem bjóða upp á ýmiss konar þjónustu á Akureyrar og nágrenni. Starfsfólk er spennt fyrir komandi vetri og vonumst eftir því að hægt verði að opna fjallið að fullu fyrir almenningi eins fljótt og auðið er, öll höfum við þörf á útivist næstu mánuðina.

Mynd eftir Óskar Wild Ingólfsson tekin 23. desember 2020.
Mynd eftir Óskar Wild Ingólfsson tekin 23. desember 2020.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan