Hatursorðræða

Samkvæmt mannréttindastefnu Akureyrarbæjar mun hatursorðræða og hatursglæpir ekki verða liðnir á Akureyri 
og vinna á gegn slíku með fræðslu.

Þessi síða er liður í þeirri fræðslu og á að verða til þess að starfsfólk Akureyrarbæjar
þekki hatursorðræðu og hatursglæpi og áhrif þeirra.

 

 

 

Hvað er hatursorðræða?

Engin ein skilgreining er til á hugtakinu hatursorðræða (e. hate speech) – hvorki á Íslandi né erlendis. Í lagalegum skilningi er hatursorðræða orðræða, bending eða atferli, skrif eða tjáning, sem er bönnuð sökum þess að hún kann að hvetja til ofbeldis eða saknæms athæfis gegn einstaklingi eða hópi sem nýtur verndar laganna, eða sökum þess að er lítillækkandi eða ógnandi fyrir slíkan einstakling eða hóp. Hugtakið hatursáróður vísar til sömu hegðunar. Hatursorðræða getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga, hópa og samfélög. Orðræðan getur bæði verið lögleg og ólögleg, það fer eftir túlkun laganna í því landi sem við á.

Ólíkar aðstæður
Hatursorðræða fer fram á margvíslegum vettvangi: í skóla, vinnustað, almenningssamgöngum, úti á lífinu, á netinu eða í öðrum aðstæðum. Skrifleg og munnleg orðræða er algengust en tákn og líkamstjáning er einnig nokkuð algengt.
Netið er hinn miðlæga samfélagsmiðstöð. Á netinu er auðvelt að yfirstíga ósýnilega þröskulda tjáningar og allir geta tekið þátt í opinberri umræðu. Þar er hægt að tjá sig nafnlaust eða undir fölsku nafni sem kann að vera skiljanlegt í einhverjum kringumstæðum en veitir fólki líka möguleika á að ögra, áreita eða tjá sig á þann hátt sem það mundi aldrei gera þegar það hittir fólk frá augliti til auglits eða undir fullu nafni.
Í hegningarlögunum kemur skýrt fram að tjáningin þarf að fara fram opinberlega til þess að vera refsiverð, þ.e. það þarf að vera ásetningur til að ná til fleiri manna heldur enn einungis þess sem áreitið beinist að.

 Hvað á að gera ef maður sjálfur eða aðrir verða fyrir hatursorðræðu? 

Hatursorðræða, einelti og áreitni á sér stað á netinu og öðrum stöðum og getur haft miklar afleiðingar fyrir fórnarlambið. Hatursorðræðu ber að stöðva um leið og hennar verður vart.
Í sumum tilfellum vill fólk ekki segja frá því ef það eða aðrir hafa orðið fyrir hatursorðræðu. Skömmin er algeng, sumir finna til skammar ef þeir hafa sjálfir verið gerendur, sumum finnst þeir minna virði en aðrir, sumir eru hræddir við afleiðingarnar, jafnvel að sá sem þeir sem þeir segja frá verði reiður eða æstur.

Hér eru nokkur ráð til þín sem hefur upplifað hatursorðræðu:

Ég vil aðstoð

Segðu frá eins fljótt og mögulega, þá geturðu fengið stuðning og aðstoð til þess að stöðva áreitið.

  • Tilkynntu atvikið til lögreglu
    Öll atvik sem gætu talist brotleg við lög ber að tilkynna til lögreglu
  • Vistaðu myndina eða skilaboðin ef atvikið gerðist á netinu.
    Þá geturðu sýnt öðrum áreitið sem þú varst fyrir.
  • Skráðu atvikið gaumgæfilega
    Nöfn, myndir, tími, staður, tilvitnanir. Skráðu allt sem þú manst.
  • Tilkynntu atvikið á heimasíðu
    Margar heimasíður eru með tilkynningarhnapp. Þú getur tilkynnt óháð því hvort áreitið brjóti reglur eða leiðbeiningar viðkomandi heimasíðu eða er ólöglegt. Ef það er ekki hægt að tilkynna beint á heimasíðunni þá getur haft samband við þann sem á domeinið: https://www.whois.com/whois/
  • Talaðu við einhvern sem þú treystir
    Ekki þegja yfir hatursorðræðunni sem þú varðst fyrir. Talaðu við einhvern sem þú treystir. Til dæmis ættingja, vini, samstarfsfólk, yfirmann, kennara. Ef þú ert nemi þá ber skólanum skylda til að aðstoða þig.

Ég þekki einhvern sem þarf aðstoð

  • Sýndu fórnarlambinu stuðning
    Ekki setja læk eða áframsenda ef atvikið gerðist á netinu. Vertu til staðar, hlustaðu og hjálpaðu viðkomandi að leita eftir aðstoð fagaðila.
  • Veittu aðstoð við að tilkynna
    Margar heimasíður eru með tilkynningarhnapp. Þú getur tilkynnt óháð því hvort áreitið brjóti reglur eða leiðbeiningar viðkomandi heimasíðu eða er ólöglegt. Ef það er ekki hægt að tilkynna beint á heimasíðunni þá getur haft samband við þann sem á domeinið: https://www.whois.com/whois/
  • Taktu afstöðu
    Vertu afdráttarlaus við þann sem beitir hatursorðræðu. Taktu skýra afstöðu gegn verknaðinum með því að grípa inn í aðstæður, gerðu þitt til þess að aðrir geri slíkt hið sama. 

Afleiðingar hatursorðræðu 

Hatursorðræða getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér bæði fyrir þann sem verður fyrir henni og fyrir samfélagið allt. Það sama gildir um hatursorðræðu sem er ekki refsiverð.

Áhrif á einstaklinga
Sá sem verður fyrir hatursorðræðu upplifir niðurlægingu, skömm og/eða hræðslu. Orðræðan getur einnig leitt til kvíða, þunglyndis, lélegrar sjálfsmyndar, svefnvandamála og einbeitingarskorts. Sömu afleiðingar geta átt við þá sem verða vitni að hatursorðræðu í garð annarra.

Sumir draga sig úr aðstæðum þar sem þeir gætu átt á hættu að verða fyrir hatursorðræðu vegna álagsins sem því fylgir, t.d. opinberri umræðu og þátttöku í félagastarfi. Hatursorðræðan dregur þannig úr möguleikanum til félagslegrar þátttöku.

Hatursorða getur haft margar sömu afleiðingar og einelti og áreitni og önnur hegðunarmynstur. Meginmunurinn felst í því að hatursorðræðan getur átt við um eitt einstakt tilvik.

Áhrif á hópa
Eitt einkenna hatursorðræðu eru afleiðingarnar á fleiri en þann sem hún beinist að. Þeir sem samsama sig með þolandanum upplifa þannig að orðræðan beinist einnig að þeim. Þar af leiðandi geta heilu samfélagshóparnir upplifað orðræðuna sem árás og útskúfun. Þegar slík hatursorðræða er endurtekin þá er hún jarðvegur fordóma sem geta varað lengi. Þannig viðhelst útskúfunin, jaðarsetningin og niðurlægingin sem í verstu tilfellunum festir rætur og viðhorfin gagnvart hópunum verða almenn og viðurkennd.

Áhrif á samfélagið
Þegar hatursorðræða verður slík að hún yfirtekur tjáningarfrelsið þá er lýðræðið í hættu. Í góðu og heilbrigðu lýðræðislegu samfélagi þurfa margar fjölbreyttar raddir að heyrast.

  • Hatursorðræða getur skapað hræðslu og óöryggi, þannig að fólk forðist þátttöku t.d. í opinberri umræðu.
  • Þegar einstaklingar draga sig úr umræðunni þá hverfa einnig mikilvæg innlegg og sjónarhorn. Ýmsir hópar verða þannig minna sýnilegir í umræðunni.
  • Þeir sem halda uppi umræðunni gætu í meiri mæli farið að ritskoða sjálfan sig, þetta getur t.d. átt við um stjórnmálafólk og fjölmiðla.

Bann við áreitni og mismunun á Íslandi 

Jafnræðisreglan í 65. gr. stjórnarskrárinnar er grundvallarregla íslenskrar stjórnskipunar, þar segir: Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Í 27. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011 er að finna ákvæði sem leggur bann við hatursáróðri og hvatningu til refsiverðrar háttsemi. Í ákvæðinu segir: Fjölmiðlum er óheimilt að hvetja til refsiverðrar háttsemi. Einnig er þeim óheimilt að kynda með markvissum hætti undir hatri á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, trúarskoðana, þjóðernis eða menningarlegrar, efnahagslegrar, félagslegrar eða annarrar stöðu í samfélaginu. Lögin gilda þó aðeins um fjölmiðla eins og þeir eru skilgreindir í lögunum og því falla samfélagsmiðlar og ýmsar vefsíður utan við lögin. Í 27. gr er hatursáróður skilgreindur sem „tal, texti, tjáning, hegðun og/eða framkoma sem birtist í texta, hljóði og/eða mynd þar sem hvatt er til ofbeldis, fordóma og/eða fordómafullrar hegðunar gegn einstaklingi eða hópi af fólki og/eða með því að vanvirða, smána, hræða og/eða ógna viðkomandi einstaklingi eða hópi".

Í lögum um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018 er sett skýrt bann við mismunun og horft til þess að stuðla eigi að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga af sömu ástæðum. Markmiðið er einnig að sporna við því að skoðanir á mismunandi verðleikum kynþátta festi hér rætur.

Með lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018 er skýrt kveðið á um bann við allri mismunun fólks á vinnumarkaði, hvort heldur beina eða óbeina, á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar.
Auk þessara laga má nefna að réttarstaða ýmissa hópa er frekar tryggð með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 og stjórnsýslu jafnréttismála nr. 151/2020, lögum um breytingu á réttarstöðu samkynhneigðra nr. 65/2006 og lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992 og málefni aldraðra nr. 125/1999.

Í kynjajafnréttislögum nr. 150/2020 er að finna orðskýringar og skilgreiningar á kynferðislegri áreitni með lögunum en þar segir: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Í 14. grein er svo nánar fjallað um réttindi fólks sem verður fyrir áreitni. En þar segir að „atvinnurekendur og yfirmenn stofnana, félagasamtaka og íþrótta- og æskulýðsfélaga skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og notendur þjónustu verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, í stofnun, félagsstarfi eða skólum.

Í almennum lögum má finna önnur ákvæði sem ætlað er að vernda og viðhalda jafnrétti. Helsta má þar nefna jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en jafnframt má víða finna einstök lagaákvæði sem leggja bann við mismunun eða leitast við að tryggja ákveðin réttindi. T.d. í grunnskólalögum, lögum um réttindi sjúklinga og lögum um póstþjónustu.

Haturorðræða getur falið í sér refsingu en ákveðin grundvallaratriði verða að vera til staðar til að tjáning verði talin brotleg og flokkist sem slík:

Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 er að finna ýmis ákvæði sem vernda einstaklinga og hópa gegn vissu formi tjáningar. Í 233. gr. segir að hver sem ræðst opinberlega á manneskju eða hóp einstaklinga með háði, ærumeiðingum, móðgunum, hótunum eða öðrum hætti á grundvelli ríkisfangs þeirra, hörundslitar, kynþáttar, trúar eða kynhneigðar skuli sæta sektum eða fangelsi í allt að tvö ár. Í 234. gr. er lagt bann við því að meiða æru annars manns með orðum eða athöfnum. Í 199 gr. er kveðið á um fangelsisvist allt að 2 árum fyrir þann sem gerist sekur um kynferðislega áreitni.

Til þess að meta hvort verknaðurinn sé refsiverður eða ekki þarf að skoða bæði aðstæður og samhengi. Lögregla og ákæruvald metur hvort þau atriði séu til staðar sem þarf til þess að tjáning teljist vera brotleg og flokkist sem slík. Þá er einnig horft til skyldra greina í hegningarlögum, sbr. þær sem nefndar eru hér að ofan; um þann sem ræðst opinberlega á aðra manneskju; þann sem meiðir æru annars manns og/eða þann sem gerist sekur um kynferðislega áreitni.

Sé rýnt í alþjóðleg lagaákvæði og meginreglur í dómafordæmum og viðeigandi fræðirit um hatursorðræðu er ljóst að ákveðin grundvallaratriði verða að vera til staðar til að tjáning verði talin brotleg og flokkist sem slík :

  • Það verður að standa ásetningur til þess að ýta undir hatur á ákveðnum hóp.
  • Hvatning/áskorun verður að vera til staðar.
  • Orsakasamband – mismunandi er hvort afleiðingar þurfa að hafa komið fram eða hvort aðeins verði að telja líklegt að tjáning hafi ákveðnar afleiðingar.
Síðast uppfært 26. apríl 2022