Bæjarins Bestu - Marthen Elvar Veigarsson Olsen

Nafn: Marthen Elvar Veigarsson Olsen, kallaður Matti

Vinnustaður: Leikskólinn Tröllaborgir

Hver eru helstu verkefnin í þínu starfi:

Ég er svo ótrúlega heppinn að vinna í svo skemmtilegu og fjölbreyttu starfi. Sem aðstoðarskólastjóri sinni ég bæði daglegri stjórnun ásamt því að vinna að uppeldi og menntun yngstu einstaklinganna í bænum, 1 – 6 ára, sem er svo gefandi þó það geti auðvitað verið krefjandi á stundum líka. Hver og einn dagur er mjög misjafn og er ég það heppinn að ég stekk í öll störf innan leikskólans sem hentar mér mjög vel og er þá hver og einn dagur eins og nýtt ævintýri sem alltaf er jafn spennandi að takast á við.

 

 

Eru einhver spennandi verkefni eða nýjungar á þínum vinnustað eða e-ð áhugavert sem þú getur sagt okkur um vinnustaðinn?

Nýjasta nýtt á mínum vinnustað er auðvitað gjaldfrjálsi tíminn milli 8 og 14. Þetta er virkilega spennandi verkefni og verður gaman að fylgjast með þróuninni næstu árin og hvort þessi þróun muni jafnvel skila sér út í atvinnulífið.

Hver er skemmtilegasta hefðin á þínum vinnustað?

Mér finnst hefðirnar í kringum jólin alltaf mjög skemmtilegar, sérstaklega jólakakóhúsið sem ég hef séð um síðustu 2 ár á leikskólanum. Þá koma börnin á Velli (salurinn í skólanum) þar sem ég er búin að setja upp kósý stemmingu, þau gæða sér að kleinum og fá heitt súkkulaði á meðan við erum með dauf ljós og hlustum á lágstemmda jólatónlist. Yndisleg stund !

Aðeins um þig?

Ég er fæddur og uppalinn á Ísafirði í stórum systkina hóp en er búinn að búa hér á Akureyri síðan 2011. Ég er giftur og búum við maðurinn minn á eyrinni með öllum 4 hundunum okkar.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í frítímanum þínum?

Mér finnst mjög skemmtilegt að ferðast og væri til í að gera það miklu meira en ég geri nú þegar. Annars er það auðvitað þetta hefðbundna að vera með fjölskyldu og vinum, finnst einnig mjög skemmtilegt að fara í leikshús og á tónleika í góðra vina hópi.

Hvort finnst þér skemmtilegra að elda eða baka?

Mér finnst æðislega gaman að elda, baka helst bara í ýtrustu neyð.

Áttu einhverja uppáhalds uppskrift sem þú vilt deila með okkur?

Þetta er mjög erfið spurning. Ég fylgi sjaldnast uppskriftum en ein uppskrift sem ég fann inn á gotteri.is hef ég notast aðeins við en hef breytt henni aðeins og það er Paella í potti.

  • Kjúklingalæri, paprika, laukur, hvítlaukur, hakkaðir tómatar í dós, Arboorio hrísgrjón, vatn, kjúklingakraftur, ólífuolía, salt, pipar, paprikukrydd, saffran, kóríander og sítróna.
  • Elda kjúkling vel í potti, krydda hann vel og geyma til hliðar. Grænmeti sett í pott og eldað þar til það er orðið mjúkt. Kjúklingur settur aftur í pottinn ásamt vatni, tómötum í dós og kjúklingakrafti. Krydda eftir smekk. Látið malla í 15 mín.
  • Saffran bætt við og passa að soðið sé vel kryddað. Hrísgrjónum bætt út í og þetta látið malla við vægan hita þangað til vökvinn hefur gufað upp að mestu og grjónin eru farin að mýkjast.
  • Borið fram með söxuðu kóríander og sítrónu til að kreista yfir.

 

Hvaða bók ertu að lesa, eða hvaða þætti ertu að horfa á?

Ég var að byrja á ævisögu Britney Spears og lofar hún góðu. Einnig var ég að klára síðustu þáttaröðina af The Crown.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan