Bæjarins Bestu - Jónas Stefánsson

   

Nafn: Jónas Stefánsson (Jonni)

Vinnustaður: Hlíðarfjall - Svæðisstjóri

Hver eru helstu verkefnin í þínu starfi:

Ég sé í raun bara um að dagleg starfsemi fjallsins gangi smurt fyrir sig, hvað þarf að troða og laga í brekkunum, halda öllum lyftum gangandi og að allir starfsmenn fjallsins séu að sinna sínum störfum vel. Þetta er mjög fjölbreytt og enginn dagur er eins.

 

Eru einhver spennandi verkefni eða nýjungar á þínum vinnustað eða e-ð áhugavert sem þú getur sagt okkur um vinnustaðinn?

Það er alltaf nóg að gera hjá okkur, samhliða daglegri starfsemi hjá okkur er verið undirbúa heimsmetstilraun í skíðastökki en það er Red Bull sem stendur að þeim viðburði og Japanskur skíðastökkvari sem stefnir á metið. Undirbúningurinn er á lokametrunum og líklegt að metið verði reynt á næstu dögum.

Hver er skemmtilegasta hefðin á þínum vinnustað?

Ætli það sé ekki bara bakkelsið á miðvikudagsfundunum okkar.

Aðeins um þig?

Ég er 35 ára gamall, fæddur í borg óttans en flutti norður í Mývatnssveit 15 ára og fór í Framhaldsskólann á Laugum þar sem ég kynntist eiginkonu minni Örnu Benný Harðardóttur. Við eigum saman tvo stráka, Benóný Þór 8 ára og Stefán Frey næstum 1 árs. Við höfum búið á Akureyri frá 2011 og erum alsæl hér. Við erum mikið íþrótta og útivistarfólk og það gerir Akureyri svo heillandi fyrir okkur, hvort sem það eru skíðin, hjólið, snjósleðinn eða fjallgöngur þá er úrvals svæði fyrir þetta allt og meira bókstaflega í bakgarðinum hjá okkur. Við elskum að ferðast um landið okkar og einnig erlendis og þó það sé alltaf notalegt heima þá líður okkur hvergi betur en í ævintýrum í náttúrunni.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í frítímanum þínum?

Sumir vilja meina að ég hafi alltof mikið af áhugamálum en ég nýti minn frítíma mikið með fjölskyldunni en yfirleitt í einhverskonar útivist, fjallahjól, skíði, bretti, snjósleðar, fjallgöngur og ferðalög eru það helsta. Síðustu ár hef ég verið að keppa á fjallahjólum (Enduro) á sumrin og á snjósleðum (Snocross) á veturna svo það fer talsverður tími í það.

Hvort finnst þér skemmtilegra að elda eða baka?

Ég elska að grilla svo það hlýtur þá að vera eldun frekar en bakstur.

Áttu einhverja uppáhalds uppskrift sem þú vilt deila með okkur?

Grilluð pizza með skinku, pepp, osti, rjómaosti, piparosti og döðlum er málið.

Hvaða bók ertu að lesa, eða hvaða þætti ertu að horfa á?

Ég er ekki mikill bókaormur en frá því Benóný strákurinn minn fékk áhuga á Harry Potter þá hef ég lesið fyrir hann bækurnar á kvöldin og við erum núna nýlega byrjaðir á síðustu bókinni. Með þættina þá rúllum við í gegnum ýmislegt en reglulega er alltaf tekinn hringur á Friends seríunum.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan