Fjölgun ferða til Grímseyjar

Ferjan Sæfari
Ferjan Sæfari

Ferðum ferjunnar Sæfara til og frá Grímsey verður fjölgað um tvær á viku í sumar og verður þá siglt alla daga vikunnar nema á fimmtudögum og laugardögum. Nýja áætlunin gefur því ferðafólki sem kemur með ferjunni kost á að dvelja a.m.k. í sólarhring í eyjunni og kynnast þar með þessum einstaka stað betur en áður var í boði.

Ferðafólk í dagsferð, getur sem fyrr komið út í eyju á hádegi og haft þar viðdvöl í fimm klukkustundir á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Á þriðjudögum er farið kl. 14 frá Grímsey og á sunnudögum kl. 16. Sjá nánari áætlun hér.

Í vetraráætlun ferjunnar stansar hún aðeins skamma stund í Grímsey en þó hefur ferðum hennar frá Grímsey á föstudögum verið seinkað til kl. 16, þannig að ferðafólk getur stansað þar við heimsskautsbauginn í fjórar klukkustundir.

"Þetta eru mjög ánægjulegar fréttir fyrir Grímsey og Grímseyinga, enda hefur ferjan oft verið meira og minna full flesta daga yfir sumarið. Núna er hægt að veita bæði Grímseyingum og ferðamönnum betri þjónustu, enda er mikill áhugi á Grímsey sem áfangastað," segir Helga Íris Ingólfsdóttir verkefnastjóri "Brothættra byggða" fyrir Hrísey og Grímsey.

Nánari upplýsingar um gistimöguleika, afþreyingu o.fl. í Grímsey má finna á www.visitgrimsey.is

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan