Miðgarðakirkja

image/svg+xml

Styrktarsíða Miðgarðakirkju í Grímsey

Söfnunarreikningur Miðgarðakirkju
Kennitala: 460269-2539
Reikningsnúmer: 565-04-250731
IBAN: IS76 0565 0425 0731 4602 6925 39
SWIFT: GLITISRE

Að kvöldi 21. september 2021 brann Miðgarðakirkja í Grímey til grunna, ásamt öllum kirkjumunum hennar. Slökkvilið eyjarinnar þurfti fljótlega að lúta í lægra haldi en kirkjan varð alelda á örskömmum tíma í stífri norðanátt. Íbúar gátu því ekkert aðhafst og máttu horfa á sóknarkirkju sína brenna til grunna á skammri stundu.

Grímseyingar voru strax staðráðnir í byggja nýja kirkju. Miðgarðakirkjan var friðuð, langelsta hús Grímseyjar og sameiningartákn. Í kirkjunni hafa margar kynslóðir Grímseyinga átt sínar stærstu stundir bæði í gleði og sorg. Bruninn var því mikið áfall fyrir eyjarskeggja og virðist í raun hafa snert við allri þjóðinni.

Bygging nýrrar kirkju er viðamikið samfélagslegt verkefni sem Grímseyingar leggja nú allt kapp á að verði að veruleika. Þegar hafa safnast töluverðir fjármunir til byggingar hinnar nýju kirkju og eru eyjarskeggjar afar þakklátir öllum þeim sem hafa lagt verkefninu lið. Áætlað var að bygging og innviðir nýrrar kirkju kostuðu um 120 milljónir króna.

Í lok árs 2022 varð ljóst að sú áætlun myndi ekki standast og þyrfti að safna meira fé til að ná að fullfjármagna byggingu Miðgarðakirkju.
Öll framlög eru því vel þegin!

Nánari upplýsingar veitir:
Alfreð Garðarsson, sóknarnefndarformaður
Netfang: gagga@simnet.is, sími: 896 3048

Hin nýja Miðgarðakirkja

Undirbúningur vegna byggingar nýrrar Miðgarðakirkju hófst strax haustið 2021. Áætlað er að reisa kirkjuna í Grímsey sumarið 2022 og að hún verði fullgerð og vígð sumarið 2023. Hjörleifur Stefánsson arkitekt var fenginn til að teikna nýja kirkju og var hönnun hennar unnin í nánu samstarfi við íbúa Grímseyjar. Útlit nýju kirkjunnar mun hafa augljósa skírskotun til þeirrar eldri en verður aðeins stærri m.a. vegna nútíma krafna. Einnig er horft til þess að nýja kirkjan þjóni auk helgihalds, hlutverki menningarhúss. Þann 8. maí 2022 var tekin skóflustunga að nýrri kirkju. 

Það sem einkenndi Miðgarðakirkju öðru fremur var forkirkjan og turninn með toppmynduðu þaki. Efri hluti turnsins var undir þrengra formi og umhverfis stallinn sem myndaðist á skilunum var handrið af renndum pílárum og á hornstoðum þess fjórum voru litlir málmkrossar. Ný kirkja með svipuðum turni gæti orðið keimlík þeirri gömlu.

Á hinni nýju Miðgarðakirkju verða veggklæðingar úr lerki líkt og á gömlu kirkjunni. Gólf nýju kirkjunnar verður lagt stuðlabergsflísum og við austurgaflinn altari myndað af nokkrum bergstuðlum sem rísa upp úr gólfinu. Á kirkjuþakinu verða einnig þakskífur gerðar úr sneiðum af bergstuðlum. Árið 1222 kom Guðmundur Arason biskup til Grímseyjar á flótta undan Sturlungum. Á meðan hann dvaldi í eynni vígði hann bjargið og gert er ráð fyrir að hluti af bergstuðlunum verði fengið úr hinu vígða bergi Grímseyjar. Guðmundur góði vígði einnig brunn í landi Miðgarða, sem nefnist Gvendarbrunnur, og að auki vígði hann lindina Brynhildi.

Hluti af undirbúningi kirkjubyggingar var fólginn í fornleifarannsóknum sem Minjastofnun Íslands fór fram á að gerðar væru áður en framkvæmdir hæfust. Fornleifafræðingar frá Fornleifastofnun Íslands voru við rannsóknir í eyjunni í rúmlega viku strax eftir að skóflustunga hafði verið tekin fyrir nýrri kirkju. Í þeim hafa komið í ljós ýmsar áhugaverðar minjar. Komið var niður á það sem talið er líklegur kirkjugarðsveggur suðvestarlega í kirkjustæðinu. Kirkjugarðsveggurinn bar þess merki að hafa verið viðhaldið um aldaskeið og er að líkindum í grunninn frá miðöldum eða fyrr. Innan kirkjugarðs sást einnig móta fyrir talsverðum fjölda af gröfum. Í kjölfar þessa fundar var ákveðið að hnika kirkjubyggunni eilítið til þannig að ný kirkja stæði utan þessa gamla kirkjugarðs og komast þannig hjá raski á honum. Í stæði kirkunnar fannst einnig mikill öskuhaugur. Yngstu lög hans eru líklega frá 18.-19. öld en einnig fannst talsvert magn af eldri öskuhaugi sem gæti verið frá miðöldum. Öskuhaugar geyma gjarnan ómetanlegar upplýsingar um mataræði og lífsskilyrði á fyrri öldum og er vonast til að greining á beinum og gripum úr haugnum geti veitt mikilvægar upplýsingar um sögu eyjarinnar en þetta er í fyrsta sinn sem fornleifauppgröftur fer fram í Grímsey.

Miðgarðakirkja. Teikning Hjörleifur Stefánsson Náttúrlegt stuðlabergsgólf 

 

Saga Miðgarðakirkju í Grímsey

Miðgarðar er nyrsti kirkjustaður á Íslandi. Jón biskup Ögmundsson vígði kirkju í eyjunni snemma á elleftu öld. Var hún helguð Ólafi, þjóðardýrlingi Norðmanna, og skyldu þjóna við kirkjuna tveir prestar og syngja messu á hverjum degi en tvær messur á dag á sérstökum helgidögum. Síðan hefur dregið úr helgihaldi en þekkt eru nöfn 50 presta sem þar hafa þjónað. Eyjunni er nú þjónað af presti Dalvíkurprestakalls.

Miðgarðakirkja var reist árið 1867 úr rekaviði. Árni Hallgrímsson (1832-1917) frá Garðsá í Eyjafirði var yfirsmiður hennar. Kirkjunni var breytt umtalsvert árið 1932 þegar bætt var við einfalt kirkjuhúsið forkirkju með háum turni og kór. Til hafði staðið að steinsteypt kirkja leysti gömlu kirkjuna af hólmi. Guðjón Samúelsson lagði fram hugmyndir árið 1925 að nýrri kirkju og báru endurbæturnar sem ráðist var í talsverðan svip af þeirri tillögu. Helgi Ólafsson smiður og bóndi á Borgum í Grímsey sá um endurbæturnar og fórst afar vel úr hendi að fella saman gamla kirkjuhúsið og nýbyggingarnar. Kirkjan stóð þá nær Miðgarðabænum en var færð um lengd sína vegna eldhættu. Frekari framkvæmdir fóru fram á kirkjunni árið 1956 og var hún endurvígð 12. ágúst 1956 af Ásmundi Guðmundssyni biskupi.

Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði þjóðminjalaga.

Miðgarðakirkja brann til grunna 21. september 2021. Fjölmargir góðir gripir glötuðust í eldinum: Predikunarstólinn frá 1867, altaristafla frá 1879 eftir Arngrím Gíslason málara, eftirmynd af kvöldmáltíðarmynd Leonardo da Vinci; fagurlega útskorinn skírnarfontur eftir Einar Einarsson frá 1958, og tvær fagrar söngtöflur eftir hann, svo fáeinir gripir séu tilteknir.

Síðast uppfært 22. september 2023