Grímsey – heimskautaeyjan óviðjafnanlega
Grímsey liggur á heimskautsbaug, 41 km frá norðurströnd Íslands. Hún er 5,3 ferkílómetrar að flatarmáli og 5,5 km að lengd.
Eyjan er mynduð úr blágrýti og myndar það víða afar fallegt stuðlaberg sem er vinsælt myndefni ljósmyndara. Grímsey hallar
frá austri til vesturs. Að austan ganga há björg í sjó fram og er
bjargbrúnin 105 m yfir sjó þar sem hún er hæst. Að vestan er eyjan lægri og þar er höfnin og byggð eyjarinnar. Frá eyjunni er
fögur fjallasýn frá suðvestri til suðausturs.
Byggð hefur verið í Grímsey frá landnámi og var eyjan jafnan talin matarkista vegna hins gjöfula lífríkis sem þar er að finna. Þjóðsaga tengir nafn eyjarinnar við landnámsmanninn Grím frá Sogni í Noregi en aðrar skýringar kunna einnig að vera á nafninu sem á sér samsvaranir m.a. í Noregi og á Bretlandseyjum. Eyjan var til forna í eigu Munkaþverár og Möðruvallaklaustra. Voru bændur í eyjunni leiguliðar og greiddu landsskuldina í skreið til klaustranna.
Byggðin
Í Grímsey búa um 90 manns. Aðalatvinnuvegur eyjarbúa er fiskveiðar og fiskverkun. Landbúnaður til heimilisnota hefur verið stundaður
frá upphafi en mjög hefur dregið úr honum á síðustu árum og hefur kúabúskapur
nú lagst af.
Í Grímsey er verslun, tvö gistiheimili, veitingastaður, handverkshús, kaffihús, sundlaug, félagsheimili og tjaldsvæði. Þjónusta við ferðamenn er vaxandi. Fastar flugferðir eru þangað frá Akureyri og skipsferðir með ferju frá Dalvík. Raforka í Grímsey er framleidd með díselrafstöð og kælivatn frá rafstöðinni nýtist sundlauginni á staðnum.
Grímsey og Akureyri
Vorið 2009 samþykktu íbúar Grímseyjar og Akureyrar með miklum meirihluta að sameina sveitarfélögin. Eyjarnar Hrísey og Grímsey eru því báðar hluti Akureyrarkaupstaðar.
Lífríki sjávar við Grímsey er fjölbreytt og er afrakstur þess nýttur bæði af íbúum eyjarinnar og aðkomumönnum. Frægur er Grímseyjarlaxinn sem flæktist í net við eyna veturinn 1957. Hann var 132 sentimetrar á lengd og blóðgaður vóg hann 49 pund.
Menningarlíf
Menningarlíf hefur jafnan staðið með blóma í Grímsey. Grímseyingar voru frægir fyrir taflmennsku sína á síðari hluta
19. aldar. Bandarískur auðmaður og áhugamaður um skák, Daniel Willard Fiske, sem fæddur var 1831,
sigldi fram hjá eyjunni og frétti af þessu. Af því tilefni færði hann hverju heimili í eyjunni taflborð og taflmenn að gjöf og jafnframt
færði hann eyjarbúum háa fjárhæð sem lögð var í sjóð til styrktar íbúunum.
Er hans ávallt minnst í Grímsey og fæðingardagur hans, 11. nóvember, er haldinn hátíðlegur ár hvert. Bókasafn er í eynni og þar eru einnig varðveittir gripir úr gjöf Fiske m.a. bækur, myndir og taflborð. Barnaskóli er í eyjunni til 14 ára aldurs.