Áhugaverðir staðir

Hér má sjá söguskilti um Grímsey

Grímseyjarkirkja
Jón biskup Ögmundsson vígði kirkju í eyjunni snemma á elleftu öld. Var hún helguð Ólafi, þjóðardýrlingi Norðmanna, og skyldu þjóna við kirkjuna tveir prestar og syngja messu á hverjum degi en tvær messur á dag á sérstökum helgidögum. Síðan hefur dregið úr helgihaldi en þekkt eru nöfn 50 presta sem þjónað hafa þar. Eyjunni er nú þjónað af presti Dalvíkurprestakalls. Kirkjan er byggð 1867 en stækkuð og endurbætt árið 1932. Altaristaflan er gerð af Arngrími Gíslasyni á Völlum í Svarfaðardal árið 1878 og er eftirmynd af verki eftir Leonardo da Vinci.

Grímseyjarkirkja þykir góð til áheita.
Nánari upplýsingar um kirkjuna má sjá á gardur.is og í gögnum húsafriðunarnefndar.  

Björgin
Á fyrri tímum voru björgin mikilvæg matarbúr og átti hver bær sitt bjargsvæði þar sem tínd voru egg og fuglar veiddir. Kiwanisfélag eyjarinnar hefur séð til þess að björgin eru merkt sínum fornu nöfnum sem oft tengjast nafni bæjarins sem átti viðkomandi bjarghluta.

Björgin á austur hluta eyjarinnar eru hæst og eru allt að 60 til 100 metra há. Að tína egg úr þessum björgum gat verið hættusamt verk í þá daga en björgin voru samtímis mikilvægt forðabúr fyrir eyjaskeggja. Eggjatínslumenn sigu allt að 60 til 70 metra niður af bjargbrúninni og var vaðsins gætt af sex til sjö manns uppi á brúninni. Mesta hættan stafaði af lausu grjóti sem gat fallið niður á þann sem hékk í reipinu.

Egg eru enn tínd skv. fornri aðferð þó dráttarvél sé nýtt við að tryggja menn uppi á brún. Þetta er gert á sérstökum hátíðum og eins til að tryggja eyjarskeggjum aðgang að góðgæti bjargsins skv. gamalli hefð þó það sé ekki í sama magni og áður var.

Heimskautsbaugurinn
Heimskautsbaugurinn sker þvert í gegnum Grímsey frá vestri til austurs um norðurhluta hennar. 

Heimskautabaugurinn er syðsta lengdargráða norðurhvels jarðar þar sem sólin er stöðugt yfir eða undir sjóndeildarhringnum í 24 tíma. Norðan við heimsskautabauginn er sólin yfir sjóndeildarhringnum allan sólahringinn einu sinni á ári. Þetta á sér stað þann 21.júní og sólin er einnig sjáanleg á miðnætti. Á hinn bóginn sést ekkert til sólar þann 21.desember þar sem sólin er fyrir neðan sjóndeildarhringinn allan sólarhringinn.

Staðsetning heimskautabaugsins er ekki föst þar sem hún færist um 15 cm á ári. Á mörgum stöðum er staðsetning heimsskautsbaugsins þó bundin við 66°33'N. Nú er heimsskautsbaugurinn 66°33,3'N á Grímsey norðan við flugstöðina.

Tákn fyrir bauginn hefur verið reist á 66°33'N, einhverskonar brú sem hægt er að ganga yfir fyrir norðan flugstöðina við hliðina á norðurenda gistiheimilisins Bása. Við hlið táknsins má finna vegprest sem sýnir vegalengdina til helstu borga í heiminum.

Hólmarnir 
Við norðurenda tjarnarinnar sem liggur við leiðina frá þorpinu út á flugvöllinn má sjá tvo höfða við ströndina.  Þar segir sagan að fyrstu landnemar Grímseyjar séu heygðir, maður að nafni Grímur, sem sigldi ásamt fjölskyldu sinni frá Sognafirðinum í Noregi til Íslands og settist að í Grímsey. Hann og kona hans eru sögð heygð hvort í sínum höfðanum.

Listaverk - Fiske minnismerkið
Fyrir ofan höfnina, fyrir framan veitingastaðinn og búðina, má sjá minnismerki um Daniel Willard Fiske sem var mikill velgjörðamaður Grímseyinga. Fiske var ríkur amerískur fræðimaður og skákáhugamaður. Hann sigldi fram hjá Grímsey og heillaðist af lífsbaráttu eyjabúa og áhuga þeirra á skák. Hann ákvað því að gefa hverju heimili í Grímsey skáksett auk þess sem hann gaf samfélaginu talsverða peningaupphæð til að styðja þá til framtíðaruppbyggingar í eyjunni.

Minnismerkið sýnir seglskútu svipaða þeirri sem Fiske (1831-1904) sigldi á þegar hann fræddist um Grímsey og íbúa hennar. 

Samstarfsverk
Sumarið 2010 hélt listamaðurinn Georg Hollander námskeið með börnum í Grímsey þar sem unnið var með efni úr fjörum eyjarinnar og búin til ýmiskonar listaverk.  Sjá má listaverkin víða um eyjuna, þau voru alls 6 en hafa smátt og smátt týnt tölunni enda flest úr nátttúrulegum efnivið með misgóða endingu. Sólstóllinn er það verk sem stendur best út við hafið á milli þorpsins og flugvallarins og er góður útsýnistaður til lands og hádegissólarinnar. 

Stuðlaberg
Í Grímsey eru margar fallegar stuðlabergsmyndanir. Þær fegurstu má finna á suðvesturhorni eyjarinnar.  Basalt myndast við eldgos og ef það kólnar við ákveðin skilyrði myndast þessi sérstöku sexkanta kristallar sem kallast stuðlaberg.

Vitinn
Vitinn í Grímsey var byggður árið 1937. Hann er staðsettur á suðaustur horni eyjunnar og er á meðal merku byggingum hennar. Í upphafi var honum stjórnað með gaslampa sem þurfti að kveikja og slökkva á með handafli. Nú til dags er vitinn sjálfvirkur og er mjög mikilvægur fyrir skipaumferð um svæðið í kringum eyjuna. Ferðamenn komast ekki inn í vitann en þaðan er þó gott útsýni yfir klettana á austurströnd eyjunnar auk þess sem hann er vinsælt viðfangsefni ljósmyndara.

Vindmyllan
Þar sem hvorki er náttúruleg uppspretta af heitu vatni né nein önnur náttúruvæn leið til að framleiða rafmagn í Grímsey er notuð til þess dísilrafstöð. Árið 1973 var byggð vindmylla og gerð tilraun til þess að nýta vindorku. Sú tilraun mistókst þar sem hún bilaði stuttu eftir að hún var byggð. Hægt er að sjá það sem eftir stendur af vindmyllunni uppi á hæð á suðvesturhluta eyjunnar.

Síðast uppfært 26. febrúar 2017