Íslandsmeistari í Grímsey

Drífa Ríkarsdóttir á Reykavíkurleikunum.
Mynd: Reykjavík International Games
Drífa Ríkarsdóttir á Reykavíkurleikunum.
Mynd: Reykjavík International Games

Drífa Ríkarðsdóttir, 24 ára sem býr í Grímsey, gerði sér lítið fyrir og setti þrjú Íslandsmet í kraftlyftingum á Reykjavíkurleikunum sem haldnir voru 25.-29. janúar.

Drífa setti íslandsmet í hnébeygju í 57 kg flokki þegar hún lyfti 135 kg. Hún lyfti 80 kg í bekkpressu og 172.5 kg í réttstöðulyftu og bætti þar með eigið Íslandsmet um 2.5 kg. Hún sló því sitt eigið íslandsmet í samanlögðu með 387.5 kg sem skilaði henni öðru sæti á mótinu.

Drífa hefur æft kraftlyftingar í rúm tvö ár. Hún flutti til Grímseyjar fyrir tæpum tveim árum með kærasta sínum sem er frá eyjunni. Þar hefur hún haldið æfingunum áfram í minnstu líkamsræktarstöð landsins sem Hverfisráð Grímseyjar útbjó með stuðningi Akureyrarbæjar og er til húsa í einni skólastofunni í félagsheimilinu Múla.

Með þjálfara sínum nýtir hún tæknina til að æfa, fær senda æfingadagskrá, tekur upp lyfturnar á símann sinn og fær ábendingar frá þjálfaranum um það sem betur má fara, auk þess sem hún nýtir hvert tækifæri til að æfa hjá Lyftingadeild KA þegar hún kemur í land.

Næst stefnir Drífa á Evrópumeistaramótið í kraftlyftingum sem haldið verður í Króatíu 12.-17. mars auk þess sem hún hefur náð lágmarki fyrir HM í klassískum kraftlyftingum sem fer fram í Litháen 15.-23. júní í sumar.

Við óskum Drífu innilega til hamingju með árangurinn!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan