Styrktartónleikar - Sól rís í Grímsey

Söfnunartónleikar fyrir nýrri kirkju í Grímsey.

Þessa dagana er undirbúningur í hámarki að stórtónleikunum, Sól rís í Grímsey. Tónleikarnir verða haldnir í Akureyrarkirkju miðvikudagskvöldið 27. apríl í þeim tilgangi að afla fjár til byggingar nýrrar kirkju í Grímsey. Eins og kunnugt er brann Miðgarðakirkja til grunna ásamt öllum kirkjumunum að kvöldi 21. september síðastliðinn. Allt listafólkið gefur vinnu sína en þeir sem fram koma eru Friðrik Ómar, Kristjana Arngrímsdóttir, Óskar Pétursson, Stefán Elí, Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir, Anna Skagfjörð, tríó Jónasar Þórs, Ívars og Valmars. Hljómsveitina skipa Emil Þorri Emilsson, Jón Þorsteinn Reynisson, Kristján Edelstein, Stefán Gunnarsson og Valmar Väljaots. Hljómsveitarstjóri er Eyþór Ingi Jónsson og kynnir kvöldsins Sr. Oddur Bjarni Þorkelsson úr Ljótu hálfvitunum.

Kirkjubruninn í Grímsey var mikið reiðarslag og snerti við hjörtum þjóðarinnar. Slökkvilið eyjarinnar þurfti fljótlega að lúta í lægra haldi en kirkjan varð alelda á örskömmum tíma í stífri norðanátt. Grímseyingar voru strax staðráðnir í byggja nýja kirkju og fengu Hjörleif Stefánsson arkitekt til að teikna nýja kirkju og Örnu Björgu Bjarnadóttur til að hafa umsjón með framkvæmdinni. Útlit nýju kirkjunnar mun hafa augljósa skírskotun til þeirrar gömlu. Einnig er horft til þess að nýja kirkjan þjóni auk helgihalds, hlutverki menningarhúss. Bygging nýrrar kirkju á nyrsta kirkjastað landsins er viðamikið samfélagslegt verkefni sem Grímseyingar leggja nú allt kapp á að verði að veruleika. Þeir eru því afar þakklátir öllu því listafólki og öðrum sem koma að undirbúningi tónleikanna með einum eða öðrum hætti.

Miðar á tónleikana er til sölu á tix.is (og hér má skoða Facebook viðburðinn) en þeir sem vilja styrkja söfnunina með frjálsum framlögum er bent á söfnunarreikning Miðgarðakirkju.

Kennitala: 460269-2539
Reikningsnúmer: 565-04-250731

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan