Fjölmennt í Grímsey á Fiskehátíð

Í dag, 11. nóvember, er haldið upp á fæðingardag velgjörðarmanns Grímseyinga, Bandaríkjamannsins Daniels Willards Fiske, en sá dagur er ávallt haldinn hátíðlegur í Grímsey.

Boðið verður upp á hlaðborð í félagsheimilinu Múla í kvöld kl. 18.00, lesið verður ágrip um Fiske, sem fæddur var 1831, haldin verður krágáta (pubquiz) og í framhaldinu boðið upp á dansskemmtun þar sem Kiwanismenn þeyta skífum fram á kvöldið.

Frekar fjölmennt hefur verið út í eyju það sem af er hausti, segir Karen Nótt Halldórsdóttir, sem er í kvenfélaginu Baugi, en félagið hefur séð um skipulagið á hátíðinni óslitið frá stofnun þess árið 1957. Óvenjulega margir gert út frá eyjunni í haust og bættist við einn netabátur í haust sem stefnir á að gera út frá Grímsey. Búist er við að um 45 manns verði á skemmtuninni í kvöld og hefðu verið fleiri ef ferjan hefði geta siglt í morgun, en ferðinni var aflýst sökum ölduhæðar.

Saga Daniels Willards Fiske er um margt óvenjuleg en hann gerðist mikill velgjörðarmaður Grímseyinga á 19. öld þrátt fyrir að hafa aldrei komið til Grímseyjar, einungis siglt einu sinni í námunda við eyjuna. Sem ungur maður fékk Fiske mikinn áhuga á Íslandi og lærði íslensku í Kaupmannahöfn þar sem hann kynntist m.a. Íslendingum þegar hann nam þar norræn fræði.

Í Grímsey má ennþá finna muni sem hann gaf til eyjarinnar, meðal annars töluvert magn bóka. Þar eru einnig minnismerki og söguskilti um Fiske, auk þess að í flugstöðinni á staðnum hefur verið sett upp örsýning þar sem fræðast má um Fiske og sjá má nokkra muni úr gjöf hans.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan