Kynningarfundir vegna sameiningarmála

Grimsey_Loftmynd_FridthjofuSamstarfsnefnd um sameiningu Grímseyjarhrepps og Akureyrarkaupstaðar leggur til að samhliða alþingiskosningum 25. apríl 2009 fari fram almenn atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaganna. Ef í báðum sveitarfélögum reynast fleiri kjósendur fylgjandi sameiningu en þeir sem eru andvígir, tekur sameiningin gildi þann 1. júní 2009. Kynningarfundir vegna fyrirhugaðrar sameiningar verða haldnir á Akureyri þriðjudaginn 31. mars og í Grímsey laugardaginn 4. apríl sem hér segir:

Akureyri:   Þriðjudaginn 31. mars kl. 20.00 í Síðuskóla.
Grímsey:  Laugardaginn 4. apríl kl. 14.00 í Félagsheimilinu Múla.

Skorað er á íbúa sveitarfélaganna að koma á fund í sinni heimabyggð og kynna sér sameiningarmálin.

Verði sameining Akureyrarkaupstaðar og Grímseyjarhrepps samþykkt, verður yfirstjórn sameinaðs sveitarfélags með eftirfarandi hætti, fram að sveitarstjórnarkosningum 2010: Núverandi bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar mun hafa með höndum stjórn hins sameinaða sveitarfélags til sveitarstjórnarkosninga árið 2010 og fer því með alla sveitarstjórn í Grímsey. Fagnefndir Akureyrarkaupstaðar fara hver á sínu sviði með málefni sem varða Grímsey og undir þær heyra. Hreppsnefnd Grímseyjarhrepps verður samráðsnefnd fram að sveitarstjórnarkosningum 2010. Samráðsnefnd hefur það hlutverk að vera tengiliður fagnefnda og íbúa Grímseyjar og hefur rétt til að skipa einn áheyrnarfulltrúa úr nefndinni til setu á fundum fagnefnda, með málfrelsi og tillögurétt, þegar málefni eyjarinnar er til umfjöllunar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan