Krían er mætt við heimskautsbauginn

Mynd: Eyþór Ingi Jónsson
Mynd: Eyþór Ingi Jónsson

Mikil kríubyggð er í Grímsey og sást til fyrstu kríanna að vitja varpstöðvanna í gær.

Líf kríunnar er eitt samfellt sumar. Til þess að svo geti verið leggur hún á sig lengra farflug en nokkur annar fugl. Kríurnar koma jafnan til Grímseyjar í byrjun maí og eru farnar aftur í byrjun ágúst. Þær fljúga krókaleiðir suður um höfin og eru komnar í Weddellhafið við Suðurskautslandið í nóvember. Þar dvelja þær hina suðrænu sumarmánuði fram í byrjun apríl en halda þá aftur norður á bóginn eftir Atlantshafshryggnum miðjum.

Dægurritar á kríum frá Íslandi hafa sýnt að árlegt farflug þeirra er rúmlega 90 þúsund km. Það samsvarar rúmum tveimur hringjum umhverfis jörðina. Krían getur orðið yfir 30 ára gömul og flýgur þá um ævina sem samsvarar sjöfaldri vegalengdinni til tunglsins.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan