Greitt með korti

Á dögunum var sala eldsneytis í Grímsey færð nær nútímanum þegar settur var upp bensínsjálfsali og bátadælan uppfærð þannig að nú er hægt að greiða fyrir eldsneyti með N1 korti.

Þetta væri varla í frásögur færandi nema vegna þess að íbúar hafa hingað til þurft að notast við mjög gamlan sjálfsala sem oft var bilaður. Sá sjálfsali virkaði þannig að hver íbúi átti sinn lykil og teljari skráði notkun hvers lykils. Lesið var af teljaranum um hver mánaðamót og rukkun send á lyklaeigendur. Ef skútueigendur eða aðrir ferðamenn vildu kaupa eldsneyti þá þurftu þeir að kaupa það af heimamanni sem átti lykil.

Ræsa þurfti út starfsmann ef kaupa átti díselolíu úr gömlu dælunni. Hún var hins vegar búin að vera biluð síðan 12. október og var ekki hægt að fá bensín nema með því að sjúga upp úr tankinum með slöngu ofan í brúsa.

Í Grímsey eru á bilinu 25 til 30 farartæki að staðaldri auk báta. Það var því kærkomin breyting fyrir íbúa Grímseyjar að fá nýja og örugga dælu og einfaldari greiðslumáta.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan