BÆTT FJARSKIPTASAMBAND Í GRÍMSEY

Mynd: María H. Tryggvadóttir
Mynd: María H. Tryggvadóttir

Í sumar hefjast framkvæmdir við að bæta fjarskiptasamband í Grímsey en Grímseyingar hafa lengi búið við lélegt og óstöðugt net- og símasamband. Á liðnu ári fékk Grímsey inngöngu í verkefnið Brothættar byggðir á vegum Byggðastofnunar.

Markmiðið verkefnisins, sem hlaut heitið Glæðum Grímsey, er að leiða fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, sveitarfélagið og fleiri aðila. Í þessari vinnu hefur komið skýrt fram að eitt af þeim málum sem íbúar Grímseyjar hafa hvað mestar áhyggjur af eru fjarskiptamálin, bæði net- og símasamband. Því var áhersla lögð á einmitt þann þátt.

Míla mun sjá um framkvæmd verkefnisins en heildarkostnaður þess er um 11 milljónir króna og mun stærstur hluti þess verða borgaður með styrki frá Fjarskiptasjóði eða 5 milljónir króna. Akureyrarkaupstaður leggur til 2 milljónir króna og það sem út af stendur, eða 4 milljónir króna, kemur úr styrktarsjóði byggðaþróunarverkefnisins Glæðum Grímsey. 

Komið verður á stofnsambandi um örbylgju til Húsavíkur sem á að geta borið allt að 400 Mb/s og ljósnetsbúnaður verður settur upp í símstöðinni í Grímsey. Með því býðst Grímseyingum ljósnet um koparlínur frá símstöðinni (50 Mb/s til notenda og 25 Mb/s frá notenda). Símalínur sem eru lengri en 1 km fá hefðbundna ADSL2 þjónustu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan