Gott haust í Grímsey

Myndir: Karen Nótt Halldórsdóttir
Myndir: Karen Nótt Halldórsdóttir

Óvenju mannmargt hefur verið í Grímsey í haust, en nokkuð margir Grímseyingar sem alla jafna dvelja í landi á veturna hafa nú verið í eynni, þar með talið töluvert af börnum og unglingum sem hafa verið í fjar- og heimakennslu eins og víða annars staðar.

Á sumrin dvelja yfirleitt upp undir 100 manns í Grímsey en fækkar verulega yfir vetrartímann þegar þar dvelja oftast á bilinu 15-20 manns. Núna í nóvember brá hins vegar svo við að það voru 35-40 í eyjunni. Þar af voru 6-8 börn á leik- og grunnskólaaldri og 2-3 framhaldsskólanemar.

Ufsaveiði hefur verið afar góð við eyjuna og hafa bæði Björn EA 220 og Þorleifur EA 88 prýtt topp 10 lista Aflafrétta síðustu vikur.

Bátafloti Grímseyjar hefur stækkað töluvert í ár, en auk þeirra þriggja báta sem hafa bæst við hingað til, komu feðgarnir Magnús Bjarnason og Bjarni Reykjalín nýverið til hafnar með Skel 26 sem mun fá nafnið Sæfinnur EA 58.

Í sumar var hafist handa við að koma upp líkamsræktaraðstöðu í félagsheimilinu í Grímsey og er hún nú fullbúin, komin í gagnið og vel nýtt af heimafólki.

Fyrir stuttu var lokið við að setja upp grillhýsi við tjaldsvæðið sem mun eflaust nýtast mörgum heimamanninum og ferðalangnum þegar sól tekur að hækka á lofti á ný.

Skipt var um alla kúpla á götuljósum nýlega og eyjaskeggjar hafa verið duglegir við að setja upp jólaljós á íbúðarhúsum og öðrum mannvirkjum sem lýsa nú upp myrkasta skammdegið, en í Grímsey nýtur einungis sólar í rúmar tvær klukkustundir á stysta degi ársins 21. desember 2020.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan