Fuglaskoðun

Grímsey er nyrsta byggð Íslands, 41 km norðan við fastalandið og er um 5,3 km² að flatarmáli. Nokkrar merktar gönguleiðir er að finna í eyjunni. Upplagt er að hefja göngu norður á eyjarendann og liggur leiðin þá m.a. yfir norðurheimskautsbauginn og er hægt að fá vottorð þess efnis í Grímsey. Nyrsti punktur eyjarinnar er svokallaður Eyjarfótur með sjávarbjörg á þrjá vegu og endalaust Norður Atlantshafið svo langt sem augað eygir. Göngustígur liggur með bjargbrúninni að Grenivíkurvita syðst á eyjunni. Á bakaleiðinni eftir vesturströndinni er vert að gefa gætur formfögru stuðlabergi í sjó fram. Víða á leiðinni er ákjósanleg aðstaða til fuglaljósmyndunar.

Í Grímsey eiga margar íslenskar fuglategundir athvarf enda lífsbjörg á hverju strái. Ekki skaðar heldur fuglalífið að hvorki finnast þar rottur né refir. Grímsey er einn besti skoðunarstaður bjargfugla við Íslandsstrendur. Bjargfuglinn fer að láta sjá sig í mars og er að mestu horfinn úr bjarginu í ágúst. Grímseyingar síga enn í bjargið á vorin til eggjatöku. Í urð undir bjarginu er næst stærsta álkubyggð heimsins (næst á eftir Látrabjargi). Í eynni er einnig stærsta lundabyggð við norðurströnd Íslands. Lundinn heldur sig í eynni frá lokum apríl fram í byrjun ágúst og er auðvelt að nálgast hann. Eitt þéttasta og stærsta kríuvarp landsins er einnig að finna í Grímsey. Lundastofninn er stærsti fuglastofninn á Íslandi. Stofnstærðin er 2-3 milljónir varppara. Minnkandi gengd sandsílis við Suður- og Vesturland hefur valdið því að varp hefur misfarist þar með tilheyrandi fækkun í stofninum, en á sama tíma hefur lunda fjölgað við Norðurland. Haftyrðill er ekki lengur á meðal íslenskra varpfugla. Hlýnandi veðrátta hefur flæmt þennan harðgerða litla bróður í svartfuglafjölskyldunni til norðlægari slóða. Nokkur haftyrðilspör verptu hér á landi fram eftir síðustu öld. Síðasta parið verpti í Grímsey árið 1993. Haftyrðlar flækjast þó enn til landsins undan norðanstormum.

Margar ástæður eru fyrir því að fuglalíf dafnar vel á eynni; stutt er í ríkar veiðilendur, engar rottur eða refir og veiði á fuglum og eggjasöfnun hefur verið mjög takmörkuð með tímanum.

Á sumrin er Grímsey heimili nánast allra helstu vaðfugla, mófugla og sjófugla sem heimsækja Ísland á ári hverju.
Þar er einn af bestu stöðum á Íslandi til að skoða fugla sem verpa á syllum s.s. ritu (Rissa tridactyla), fýl (Fulmarus glacialis), teistu (Cepphus grylle), langvíu (Uria aalge) og stuttnefju (Uria lomvia) auk þess sem álkan (Alca torda) verpir þar í urð og víðar og lundi (Fratercula arctica) í holum. Í eynni er einnig að finna kríu í ríkum mæli, auk margra annarra tegunda á borð við maríuerlu (Motacilla alba), snjótittling (Plectrophenax nivalis) og steindepil (Oenanthe oenanthe).

Besti tíminn til að skoða fugla er frá apríl til ágúst. Eftir það eru farfuglar farnir að hefja ferðalag sitt suður á bóginn og sjófuglar halda út á haf. Mest af sjófuglunum halda sig út á rúmsjó yfir vetrarmánuðina en koma í enda febrúar til að finna sér hreiðurstæði á þéttbýlu klöppunum á eynni.
Vinsamlegast hafið varann á þegar farið er nálægt klettabrúnunum. Lundarnir grafa holur undir brúnirnar fyrir hreiður sín og getur jarðvegurinn verið óstöðugur og skapað hættu þar sem jarðvegurinn verður laus í sér og óstöðugur.