Sífellt fleiri undirrita rafrænt

Mynd: Bjarki Brynjólfsson.
Mynd: Bjarki Brynjólfsson.

Um þessar mundir eru fjögur ár síðan rafrænar undirritanir voru teknar í notkun hjá Akureyrarbæ og hefur þeim fjölgað mikið. Í fyrra voru ríflega 8.100 skjöl, fundargerðir og teikningar undirritaðar rafrænt í gegnum málakerfi bæjarins sem samsvarar í kringum 30 skjölum á hverjum virkum degi ársins.

Fjöldi rafrænt undirritaðra skjala jókst um 52% frá árinu 2022 og hefur meira en fjórfaldast frá árinu 2021 þegar tæplega 1.900 skjöl voru undirrituð rafrænt.

Í upphafi var fyrst og fremst skrifað rafrænt undir fundargerðir ráða og nefnda. Fljótlega bættust fleiri skjöl við og hefur verið lögð áhersla á að útvíkka notkun á þessari lausn, enda eru rafrænar undirritanir mikilvægur liður í stafrænni vegferð sveitarfélagsins, þær spara tíma, einfalda þjónustuferla og draga úr pappírsnotkun.

Meðal þess sem hefur haft mikil áhrif á fjölgun rafrænna undirritana hjá Akureyrarbæ allra síðustu misseri er innleiðing rafrænna ráðningarsamninga. Þar að auki voru í fyrra teknar upp fullgildar rafrænar undirritanir á allar teikningar hjá embætti byggingarfulltrúa, þ.e. aðaluppdrætti og sérteikningar.

 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan