Fasteignagjöld

Hvað eru fasteignagjöld?

Eigendur fasteigna í Akureyrarbæ greiða fasteignagjöld sem renna til sveitarfélagsins. Álagning fasteignagjalda byggir á fasteignamati húsa og lóða ásamt stærð eigna.

Álagningarstofninn er fenginn úr fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 31. desember ár hvert. Fasteignaskattur leggst á nýjar lóðir og ný mannvirki í hlutfalli við ársálagningu frá næstu mánaðarmótum eftir að þau eru skráð og metin í fasteignaskrá.

Fasteignagjöld skiptast í fasteignaskatt, lóðarleigu, vatnsgjald og fráveitugjald. Að auki er sorphirðugjald innheimt með fasteignagjöldum íbúða. Gjöldin skiptast á átta gjalddaga, frá 3. febrúar til 3. september. Eindagi er 30 dögum eftir gjalddaga.

Smelltu hér til að sjá gjaldskrá fasteignagjalda.

Notaðu Reiknivél fasteignagjalda til að sjá áætluð fasteignagjöld fyrir þína eign.

Afsláttur

Tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er veittur afsláttur af fasteignagjöldum samkvæmt reglum sem eru endurskoðaðar árlega. Afsláttur reiknast sjálfkrafa á þá aðila sem eru undir tekjumörkum.

Telji íbúðareigandi sig ekki fá afslátt sem hann á rétt á skv. Reglum um afslátt af fasteignaskatti hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum hjá Akureyrarbæ, skal hann sækja um afslátt í þjónustugátt Akureyrarbæjar.

Styrkir

Bæjarstjórn Akureyrar er heimilt að veita styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi æskulýðs - og mannúðarsamtaka sem ekki er rekin í ágóðaskyni, sbr. heimild í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Sótt er um þessa styrki á þjónustugátt Akureyrarbæjar.

Smelltu hér til að finna Reglur um afslátt af fasteignaskatti hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum hjá Akureyrarbæ og Reglur um styrki til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka

Síðast uppfært 18. janúar 2024