Vísindaskóli unga fólksins kominn til að vera

Á föstudaginn brautskráðust nemendur Vísindaskóla unga fólksins eftir vel heppnaða viku í skólanum með veglegri brautskráningarathöfn í Háskólanum á Akureyri. Gleðin skein úr andlitum nemendanna sem tóku við viðurkenningarskjölum og rós frá Sigrúnu Stefánsdóttur skólastóra Vísindaskólans og Eyjólfi Guðmundssyni rektor Háskólans á Akureyri. Blásarasveit háskólans flutti vel valin lög, útskriftarnemar fluttu glæsilegar ræður og Sean Scully, sérfræðingur í efnafræðibrellum skaut áhorfendum skelk í bringu með kraftmikilli sprengjusýningu.

Þetta var í fyrsta sinn sem Háskólinn á Akureyri starfrækir Vísindaskóli unga fólksins og voru nemendur og kennarar sammála að skólinn hefði heppnast einstaklega vel og væri kominn til að vera. Að þessu sinni stunduðu yfir 90 nemendur á aldrinum 11-13 ára vikunám sem skiptist niður á fimm ólík þemu sem tengjast hefðbundnu námi háskólans. Áhuginn leyndi sér ekki hjá nemendum sem hikuðu ekki við að spyrja og skapa skemmtileg umræðu kennurunum til mikillar gleði. Enda voru það ekki aðeins nemendurnir sem uppskáru mikinn fróðleik þessa viku heldur voru það einnig kennarar skólans.

Fjölmargir aðilar hafa lagt sitt að mörkum til þess að gera Vísindaskólann að raunveruleika með mikilvægum fjárframlögum en einnig með öðrum hætti. Aðstandendur skólans þakka þeim innilega fyrir, sem og fyrir frábærar viðtökur þetta fyrsta ár Vísindaskóla unga fólksins og hlakka til að sjá forvitin og fróðleiksfús ungmenni aftur að ári.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan