Útivistarsvæðið Krossanesborgir

Undanfarin ár hefur verið lögð töluverð vinna í Krossanesborgir og þar er m.a. búið leggja nýja stíga, útbúa betri aðkomu með bílastæðum og í sumar voru sett upp fjöldi skilta með upplýsingum um fugla, plöntur og minjar sem finna má á svæðinu.

Krossanesborgir er svæði alsett klettaborgum eða stuttum klappaásum fyrir norðan Akureyri. Svæðið var friðlýst að hluta árið 2005 sem fólkvangur. Í borgunum er 5-10 milljóna ára basalt en úr því er berggrunnur Akureyrar. Langflestar borganna eru nokkurn veginn eins og ísaldarjökullinn skildi við þær fyrir um 10 þúsund árum. Þær liggja í óreglulegum röðum og þyrpingum en á milli þeirra eru oftast mýrarsund og tjarnir í sumum þeirra. Gróðurfar í borgunum er fjölbreytt og hafa þar fundist um 190 plöntutegundir, þar af 16 starategundir. Fuglalíf er fjölbreytt og þar verpa um 27 tegundir fugla eða um 35% af öllum íslenskum fuglategundum.

Hægt er að sjá nánari upplýsingar og myndir af skiltunum á ferðamannavef Akureyrarbæjar visitakureyri.is.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan