Sumartónleikar í Akureyrarkirkju

Lára Bryndís Eggertsdóttir.
Lára Bryndís Eggertsdóttir.

Vegna veikinda verður breyting á dagskrá Sumartónleika í Akureyrarkirkju nk. sunnudag, 19. júlí. Tónleikar Steinunnar Halldórsdóttur falla niður en í staðinn mun orgelleikarinn Lára Bryndís Eggertsdóttir halda tónleika. Efnisskrá tónleikanna er afar fjölbreytt. Hún mun leika tónlist frá öllum tímabilum orgeltónlistarsögunnar, allt frá gömlu spænsku stríðsverki að glænýjum íslenskum tónverkum sem Lára lét semja fyrir sig. Tónleikarnir hefjast kl. 17 og er aðgangur ókeypis.

Lára Bryndís Eggertsdóttir byrjaði ung að læra á píanó og þegar hún var 14 ára gömul tók hún fyrstu skrefin sem afleysingaorganisti í Langholtskirkju. Hún lauk einleikaraprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar með hæstu einkunn vorið 2002 undir handleiðslu Harðar Áskelssonar. Frá 2008 hefur Lára Bryndís verið búsett í Danmörku og lauk meistaraprófi í kirkjutónlist frá Tónlistarháskólann í Árósum vorið 2014. Aðalkennarar hennar þar voru Ulrik Spang-Hanssen og Lars Colding Wolf. Hún starfar nú sem organisti við Sønderbro kirkju í Horsens og semballeikari hjá barokksveitinni BaroqueAros í Árósum. Lára Bryndís hefur hlotið fjölda viðurkenninga og styrkja á ferli sínum. Haustið 2013 stóð hún fyrir viðamiklu nýsköpunarverkefni í kirkjutónlist og pantaði verk eftir sjö íslensk tónskáld undir heitinu Ég heyrði þytinn frá vængjum þeirra. Þessi verk voru frumflutt í Hallgrímskirkju í júní 2014 og samtímis voru þau gefin út á nótum og hljómdiski. Heyra má sýnishorn af "vængjatónlistinni" á tónleikum helgarinnar.

Akureyrarstofa, Menningarsjóður KEA, Norðurorka og Icelandair Hotels á Akureyri styrkja Sumartónleika í Akureyrarkirkju.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan