Spá aukinni dreifingu gosmóðunnar

Spá fyrir klukkan 17 á morgun. Mynd: Veðurstofa Íslands.
Spá fyrir klukkan 17 á morgun. Mynd: Veðurstofa Íslands.

Því er spáð að móðu frá eldgosinu í Holuhrauni verði vart á stóru svæði næsta sólarhring. Á Akureyri hefur fólk fundið fyrir óþægindum vegna gosmengunar.

Gosmóðan úr Holuhrauni lagðist yfir norðan- og norðvestanvert landið í gær, en til þessa hafa íbúar á landinu norðaustanverðu helst orðið hennar varir. Enn gætir gosmóðu á þessu svæði og Veðurstofunni hafa í morgun borist tilkynningar frá fólki á Vestfjörðum sem verður móðunnar vart.

Styrkur brennisteinsdíoxíðs er almennt ekki mikill í byggð, en fólk með viðkvæm lungu finnur fyrir því. Þannig hafa heilbrigðiseftirliti Norðurlands-eystra borist tilkynningar frá fólki á Akureyri sem finnur fyrir einkennum.

Í dag spáir Veðurstofan mengun á norðanverðu hálendinu vestur að Langjökli, norður til Skagafjarðar og inn á Húnaflóa. Í kvöld og fyrramálið er síðan spáð mjög aukinni dreifingu. Þá er talin hætta á mengun frá Ströndum austur til Eyjafjarðar og á norðanverðu hálendinu. Á Austurlandi er spáð mengun frá Egilsstöðum og suður um til Hornafjarðar. Veðurstofan segir ekki hægt að útiloka mengun á stærra svæði.

Á fjórða tug jarðskjálfta hafa mælst í og við Bárðarbungu frá miðnætti. Sá stærsti 4,5 að stærð. Þá hafa mælst hátt í 40 jarðskjálftar við enda kvikugangsins norðan Vatnajökuls.

Hér má sjá gagnvirkt kort Veðurstofunnar um líklega útbreiðslu gosmóðunnar næstu tvo daga. 

Frétt af ruv.is.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan