Söngur ómar um miðbæinn

Við Ráðhústorg.
Við Ráðhústorg.

Kraftmiklir, ungir og fallegir tónar fylla miðbæ Akureyrar föstudagsmorguninn 16. mars milli klukkan 10 og 11 en þá hefja upp raust sína í göngugötunni, neðst í stöllum Skátagilsins, hátt í 1.500 leik- og grunnskólanemar. Yfirskrift þessa skemmtilega uppátækis er Söngdagar og verður þetta endurtekið á sama tíma föstudaginn 23. mars.

Söngdagarnir eru skipulagðir af starfsfólki leik- og grunnskóla Akureyrar og eru haldnir í tilefni 150 ára afmælis bæjarins en sjálfur afmælisdagurinn er 29. ágúst.  Staðið hafa yfir miklar æfingar í skólunum síðustu mánuði þar sem tónstiginn hefur komið að góðum notum við upphitun. Krakkarnir munu syngja lög á borð við Akureyri og norðrið fagra, Snert hörpu mína og Krummi svaf í klettagjá.

Þeir sem eiga leið um miðbæinn á þessum tíma eru hvattir til að staldra við og hlýða á sönginn.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan