Síðustu Sumartónleikarnir

Síðustu Sumartónleikar Akureyrarkirkju verða sunnudaginn 27. júlí kl. 17 þegar þeir Jón Þorsteinsson, tenór, og Eyþór Ingi Jónsson, organisti, flytja íslenska sálma og söngverk eftir Bach og Händel. Þeir félagar hafa oft unnið saman áður og þá yfirleitt flutt sálma en þeir leggja mikla áherslu á að draga fram fallegar laglínur og túlka texta með virðingu og ástúð. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis.

Jón Þorsteinsson söngvari hóf tónlistarnám ungur að árum hjá Magnúsi Magnússyni í Tónskóla Ólafsfjarðar. Hann stundaði seinna nám hjá Marit Isene við Tónlistarháskólann í Osló í Noregi, við Det Jydske Musikkonservatorium í Árósum og hjá Arigo Pola í Modena á Ítalíu. Hann kom víða fram sem einsöngvari sem og kórsöngvari í útvarps- og óperukórum. Jón hefur starfað í Hollandi frá 1980 og söng meðal annars yfir 40 hlutverk á þeim tíma hjá hollensku ríkisóperunni sem og víðs vegar við óratoríu- og ljóðaflutning. Einnig var hann meðlimur í Óperustúdíói hollensku ríkisóperunnar frá 1982 til 1985. Jón naut leiðsagnar hollensku söngkonunnar Aafje Heynis frá 1986-1995 og byrjaði sjálfur að kenna upp úr 1982. Frá 1993 hefur hann einbeitt sér að söngkennslu, raddþjálfun og kennslufræði og frá 2008 hefur hann starfað sem prófessor í söng við Tónlistarháskólann í Utrecht í Hollandi. Á árunum 1998 til 2003 og frá 2008 til 2010 stundaði Jón nám við Lichtenberg Institut für angewandte Stimmphysiologie. Hann hefur haldið masterklassa frá 1985 á Íslandi, í Hollandi, Þýskalandi, Danmörku, Bandaríkjunum og Belgíu. Hann kenndi auk þess um nokkurra ára skeið við Jette Parker Young Artist Program við Royal Opera House í Lundúnum.

Eyþór Ingi Jónsson er fæddur og uppalinn í Dalasýslu þar sem hann hóf tónlistarmenntun sína sex ára gamall. Hann nam síðar orgelleik hjá Fríðu Lárusdóttur við Tónlistarskólann á Akranesi. Síðan lærði hann orgelleik, kórstjórn og hliðargreinar við Tónskóla Þjóðkirkjunnar undir leiðsögn Harðar Áskelssonar og Smára Ólasonar. Eyþór lauk Kantorsprófi frá skólanum vorið 1998. Við tók 7 ára nám við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð fyrst við kirkjutónlistardeild og síðar við konsertorganistadeild. Þaðan lauk hann prófi með hæstu einkunn vorið 2007. Orgelkennari hans var prófessor Hans-Ola Ericsson og einnig hefur hann lært hjá prófessor Gary Verkade. Eyþór hefur einnig sótt námskeið hjá fjölda þekktra kennara víða um Evrópu.

Auk þess að leggja áherslu á orgelleik í námi sínu hefur Eyþór lagt mikla áherslu á kórstjórn. Kennari hans var prófessor Erik Westberg. Eyþór hefur kennt orgelleik, spuna og kórstjórn ásamt fræðigreinum í Svíþjóð og á Íslandi. Nú kennir hann við Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Hann hefur haldið hátt í 100 einleikstónleika hérlendis og erlendis. Einnig hefur hann leikið með fjölda hljóðfæraleikara og söngvara. Í janúar 2009 flutti Eyþór orgelkonsert eftir Marco Enrico Bossi ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hann hefur einnig stjórnað hljómsveitinni í verkinu Missa Dei Patris eftir Jan Zelenka.

Eyþór starfar nú sem organisti við Akureyrarkirkju. Einnig er hann stjórnandi kammerkórsins Hymnodia. Eyþór hefur einbeitt sér annars vegar að flutningi tónlistar frá 17. öld og hinsvegar nútímatónlistar og spuna, bæði fyrir orgel og kór. Hann situr í ýmsum fagráðum og nefndum og er listrænn stjórnandi Barokksmiðju Hólastiftis. Eyþór var bæjarlistamaður Akureyrar 2011-2012.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan