RÚV eflir starfsemi sína á landsbyggðinni

Höfuðstöðvar RÚV í Reykjavík.
Höfuðstöðvar RÚV í Reykjavík.

RÚV ætlar að efla starfsemi sína á landsbyggðinni á næstu misserum. Framundan er vinna við endurskipulagningu, þróun og uppbyggingu til framtíðar á starfsemi RÚV utan höfuðborgarsvæðisins. Auglýst verður eftir svæðisstjóra með aðsetur á Akureyri til að leiða breytingaferlið.

Svæðisstjóri RÚVAK mun leiða þær breytingar sem framundan eru á starfsemi RÚV á landsbyggðinni. Hlutverk svæðisstjóra á Akureyri er með nokkuð breyttu sniði en hlutverk stöðvarstjóra var áður þar sem svæðistjóri mun stýra starfsemi RÚV á Akureyri sem og starfsemi á landsbyggðinni allri. Því hefur verið ákveðið að auglýsa starfið laust til umsóknar. Í starfinu felst meðal annars ábyrgð á fréttaflutningi og dagskrárgerð svæðisstöðva í sjónvarpi, útvarpi og á vefnum. Ýmsar breytingar eru áformaðar, meðal annars verður lögð aukin áhersla á miðlun svæðisbundinna frétta á vef RÚV.

RÚV er með fréttamenn og fréttaritara í öllum landshlutum en starfsfólki RÚV á landsbyggðinni hefur fækkað umtalsvert á síðustu árum. Ný yfirstjórn RÚV hefur boðað að aukin áhersla verði lögð á landsbyggðina í starfsemi RÚV. Endurskipulagning starfseminnar á Akureyri er fyrsta skrefið í þá átt.

Á næstu dögum munu birtast auglýsingar þar sem auglýst er eftir fréttamanni og svæðisstjóra RÚVAK með aðsetur á Akureyri sem mun leiða starfið á landsbyggðinni. Umsóknarfrestur er til 1. september.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan