Ráðstefna um sjávartengda ferðaþjónustu

Í vikunni fór fram tveggja daga ráðstefna í Háskólanum á Akureyri þar sem athyglinni var beint að sjávartengdri ferðaþjónustu og mannlífi og umhverfi á norðurslóðum. Ráðstefnan var skipulögð af Stofnun Vilhjálms Stefánssonar í samvinnu við RHA, NORA, Rannsóknamiðstöð ferðamála, Norsk Sjømatsenter og Íslenska vitafélagið. 

Sjávartengd ferðaþjónusta nýtur sífellt meiri vinsælda og tekur á sig margbreytilegar myndir. Sumir ferðamenn vilja kynnast mannlífi sjávarplássa, upplifa náttúruna, þögnina, skoða fugla og sel og renna fyrir fisk á friðsælum firði. Aðrir vilja spennu hraðbátsins, fara á brimbretti, sjóskíði og kafa, eða leigja sér bát og láta reyna á eigin kunnáttu. Svo eru þeir sem ferðast í hópum frá höfn til hafnar og frá landi til lands á risavöxnum skemmtiferðaskipum.

Á ráðstefnunni var fjallað um ýmsar hliðar sjávartengdrar ferðaþjónustu og áskoranir tengdar henni, unnið var í hópum og farið í vettvangsferð.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan