Norrænir kvikmyndadagar á Akureyri

Kvikmyndaklúbburinn KvikYndi og Norræna upplýsingaskrifstofan, í samstarfi við Sendiráð Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur á Íslandi, kynna Norræna kvikmyndadaga á Akureyri dagana 18.-23. september. Sýningar fara fram í Sambíói Akureyri og verða myndirnar allar sýndar með enskum texta. Aðgangur er ókeypis.

Dagskrá Norræna kvikmyndadaga má finna í heild sinni hér að neðan:

Fimmtudagurinn 18. september kl. 20:
Palme (Svíþjóð 2012, 103 mín).
Opnunarmynd Norrænu Kvikmyndadaga í ár er sænska heimildarmyndin Palme frá árinu 2012 í leikstjórn Maud Nycander og Kristinu Lindström. Hún fjallar um líf og störf Olofs Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar úr röðum sósíaldemókrata sem var myrtur í Stokkhólmi árið 1986. Palme var þekktur fyrir skoðanir sínar og gagnrýni á m.a. þátttöku Bandaríkjamanna í Víetnamstríðinu, aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku og kommúnistastjórnir í Evrópu. Myndin hlaut sænsku Guldbagge verðlaun fyrir klippingu og tónlist árið 2013. Myndin verður sýnd í Sambíói Akureyri þann 18. september kl. 20 með enskum texta. Húsið opnar 19.30 – léttar veitingar í boði.

Föstudagurinn 19. september kl. 17.40:
Mannen som elsket Yngve (Noregur 2011, 90 mín).
Sögusviðið er Osló árið 1989. Unglingurinn Jarle Klepp stofnar pönkhljómsveitina Mattias Rust Band ásamt tveimur vinum sínum. Kærastan hans fylgir félögunum á æfingar og fyrr en varir eru þeir fengnir til þess að hita upp fyrir þekkta tónlistarmenn. Um svipað leyti flytur Yngve í hverfið og lendir í bekk með Jarle. Jarle heillast af þessum nýja bekkjarfélaga en á erfitt með að horfast í augu við tilfinningar sínar. Myndin hlaut norsku Amanda verðlaunin fyrir m.a. leikstjórn og klippingu árið 2008 og var tilnefnd til Norrænu Kvikmyndaverðlaunanna sama ár.

Laugardagurinn 20. september kl. 17.40:
Marie Kroyer (Danmörk 2012, 100 mín).
Myndin gerist á fyrri hluta 20. aldar í Danmörku og segir frá stormasömu hjónabandi listmálaranna Marie og Peder S. Krøyer sem tilheyrðu hópi svokallaðra Skagen málara. Hjónin voru dáð af samlöndum sínum og virtust lifa hamingjusömu fjölskyldulífi. Peder glímdi hins vegar við geðræn veikindi sem tóku sinn toll af fjölskyldunni. Myndin hlaut Bodil verðlaunin í flokki besti leikari í aukahlutverki árið 2013 og var auk þess tilnefnd til verðlauna á Alþjóðlegu Kvikmyndahátíðinni í Chicago árið 2012.

Sunnudagurinn 21. september kl. 17.40:
En Kongelig Affære (Danmörk 2012, 137 mín).
Sögusviðið er Danmörk árið 1770. Karólína Matthildur Danadrottning er kvænt Kristjáni 7, hinum sinnisveika konungi Dana en á í ástarsambandi við líflækni hans, Johann Struensee. Sökum ásigkomulags konungs tekur Struensee í raun völdin í landinu og stjórnar því um 10 mánaða skeið. Upplýsingamaðurinn Struensee leggur áherslu á félagslegar umbætur með stuðningi drottningarinnar. Meðal annars skipar hann svo fyrir að skuldugir aðalsmenn verði að standa skil á skuldum sínum eða sæta fangelsi ella. Þetta veldur miklu uppþoti innan hirðarinnar og valdamikil öfl berjast gegn áformum hans. Myndin hlaut m.a. verðlaun fyrir besta handritið á Alþjóðlegu Kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 2012 og var auk þess tilnefnd til Óskarsverðlauna og Golden Globe verðlaunanna sem besta erlenda myndin árið 2013.

Mánudagurinn 22. september kl. 17.40:
Himlen är oskyldigt blå (Svíþjóð 2010, 112 mín).
Sögusviðið er Sandhamn árið 1975. Martin, 17 ára framhaldsskólanemi, fær vinnu á hóteli yfir sumartímann og er feginn að sleppa frá áfengissjúkum föður sínum. Martin er vel liðinn af hótelstjóranum Gosta, sem er hins vegar ekki allur þar sem hann er séður. Myndin var tilnefnd til sænsku Guldbagge verðlaunanna m.a. í flokki besti leikari í aukahlutverki.

Þriðjudagurinn 23. september kl. 17.40:
Upperdog (Noregur 2009, 95 mín).
Sögusviðið er Osló. Á unga aldri eru hálfsystkinin Alex og Yanne ættleidd til Noregs. Alex elst upp hjá velstæðri fjölskyldu í vesturborg Óslóar en Yanne hjá miðstéttarfjölskyldu í austurborginni. Yanne hefur ekki hugmynd um hvar bróðir hennar er niðurkominn. Það breytist þó þegar Maria, vinkona Yanne, ræður sig til þjónustu á heimili Alex. Maria ákveður að koma á endurfundum en áttar sig ekki á afleiðingunum sem fylgja í kjölfarið. Myndin hlaut norsku Kanon- og Amanda verðlaunin fyrir m.a. leikstjórn og klippingu árið 2010.

Frétt af heimasíðu Kvikyndis.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan