Matarmenningarhátíð um helgina

Aragrúi fólks sótti sýninguna í fyrra.
Aragrúi fólks sótti sýninguna í fyrra.

Local Food Festival matarmenningarhátíðin á Norðurlandi verður haldin á Akureyri um næstu helgi, 30. september til 1. október. Þetta er stærsti viðburður sinnar tegundar á landinu og verður hér eftir haldinn annað hvert ár.

Tilgangur hátíðarinnar er að vekja athygli á Norðurlandi og þeirri miklu matvælaframleiðslu sem þar fer fram, fjölbreyttu úrvali veitingastaða, matarmenningu og annarri framleiðslu sem tengist matvælum.

Norðurland er stærsta matvælaframleiðslusvæði landsins og hátíðin því kjörinn vettvangur fyrirtækja og einstaklinga í geiranum til að vekja athygli á framleiðslu, matarmenningu, matartengdri ferðaþjónustu og verslun.

Hátíðin samanstendur af Local Food sýningunni sem fram fer í Íþróttahöllinni á Akureyri og er einn stærsti viðburður sinnar tegundar á landinu og Food and Fun Pop Up Akureyri sem er í fyrsta skipti hluti af hátíðinni. Í því felst að íslenskir gestakokkar reiða fram fjögurra rétta matseðil á völdum veitingastöðum á Akureyri og þannig gefst öllu áhugafólki um mat og matarmenningu tækifæri til gæla við bragðlaukana.

Local Food sýningin er kynningar og sölusýning. Á síðasta ári komu um 15 þúsund gestir og yfir 30 fyrirtæki kynntu framleiðslu sína. Lögð er áhersla á að Local Food sýningin sé skemmtileg og eru fjöldi viðburða á sýningarsvæðinu s.s. hinar ýmsu matreiðslukeppnir þar sem fagfólk og almenningur spreytir sig með hráefni úr héraði. 

Aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis og opnunartíminn frá klukkan 13-18 laugardag.

Dagskrá Local Food Festival.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan