Katrín Björg ráðin aðstoðarmaður bæjarstjóra

Katrín Björg Ríkarðsdóttir. Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Katrín Björg Ríkarðsdóttir. Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.

Bæjarstjórinn á Akureyri, Eiríkur Björn Björgvinsson, hefur ákveðið í samráði við meirihluta bæjarstjórnar að ráða Katrínu Björgu Ríkarðsdóttur í starf aðstoðarmanns bæjarstjóra. Katrín tekur við starfinu 1. október nk. en fram að því hefur hún gegnt embætti framkvæmdastjóra samfélags– og mannréttindadeildar bæjarsins. Ráðning Katrínar Bjargar er tímabundin og miðast við núverandi kjörtímabil. Við starfi Katrínar Bjargar hjá samfélags– og mannréttindadeild tekur Sigríður Stefánsdóttir verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ. Við þessar breytingar var fyrst og fremst horft til víðtækrar reynslu og þekkingar starfsmannanna beggja.

Katrín Björg Ríkarðsdóttir hefur starfað hjá Akureyrarbæ frá árinu 2003, fyrst sem jafnréttisráðgjafi og sem framkvæmdastjóri samfélags– og mannréttindadeildar frá stofnun hennar árið 2006. Katrín Björg er með BA próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og M.Ed. gráðu í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri segir að með ráðningu Katrínar Bjargar sé ætlunin að auðvelda bæjarstjóra að vera sýnilegri og að hann geti einbeitt sér enn betur að málum sem vinna þarf framgang innan stjórnkerfisins, fylgja þeim eftir á landsvísu og gagnvart ríkisvaldinu.

Sigríður Stefánsdóttir hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af störfum innan bæjarkerfisins. Hún hefur verið bæjarfulltrúi á Akureyri, deildarstjóri, sviðsstjóri og verkefnastjóri  samskipta.  Með vísun til mannauðsstefnu Akureyrarbæjar og fyrri reynslu Sigríðar þótti rétt að ráða hana í starf framkvæmdastjóra samfélags– og mannréttindadeildar en í mannauðsstefnunni segir meðal annars að ekki sé nauðsyn að auglýsa störf þegar um tímabundnar ráðningar eða tilfærslu í starfi er að ræða, að auðvelda eigi starfsfólki framgang í starfi innan bæjarkerfisins gerist þess nokkur kostur. „Þessi breyting gefur einnig tækifæri til frekari breytinga og tilfærslu á verkefnum,“ segir Eiríkur Björn.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan