Íþróttafræði kennd við HA

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri.

Endurskoðun á kennaranámi við Háskólann á Akureyri er á lokastigi. Í kjölfarið er ætlunin að fjölga raunverulegum námskostum. Kjörsvið í fimm ára kennaranámi skólans verða því framvegis þrjú, leikskólakjörsvið, grunnskólakjörsvið og íþróttafræði. Íþróttafræðikjörsviðið er nýtt og hugsað sem veruleg breikkun á námsframboði kennaradeildar.

Íþróttafræðikjörsviðið verður boðið í fjarnámi eins og annað kennaranám skólans, að því undanskildu að á þriðja námsári verða nemendur að dvelja á staðnum vegna vettvangstengdra íþróttanámskeiða. Íþróttafræðin verður kjörsvið innan kennaranámsins sem þýðir að verðandi leik- og grunnskólakennarar geta valið það sem sérhæfingu til kennaraprófs. Háskólinn á Akureyri mun leita eftir samstarfi við Akureyrarbæ um aðgengi að íþróttamannvirkjum bæjarins vegna þessa náms, en aðstaða til íþrótta, ekki síst vetraríþrótta, er mjög góð á svæðinu.

Undirbúningur að íþróttafræðikjörsviði hefur staðið yfir lengi en stefnt hefur verið að kjörsviðinu frá árinu 1998. Fyrirhugað skipulag námsins byggir á miklu leyti á skýrslu frá árinu 2014 en hún var sú þriðja um þetta efni. Þessi endurskoðun sem er um það bil að ljúka formlega felur í sér lok á ferlinu.

Auk íþróttafræðikjörsviðsins er ætlunin  frá haustinu 2016 að bjóða upp á nýtt upplýsingatæknikjörsvið í MA náminu  til þess að mæta stöðugt vaxandi þörf kennara á öllum skólastigum fyrir menntun og þjálfun í notkun rafræns búnaðar við nám og kennslu.

Með fyrirhuguðum breytingum á kennaranáminu við skólann væntir yfirstjórn skólans þess að námið verði eftirsóttara og laði í auknum mæli bæði kynin til þess að sækja um nám í skólanum. Starfsgrundvöllurinn verður með þessu breiðari, nemenda- og starfsmannahópurinn verður fjölbreyttari og það sama gildir um rannsóknarviðfangefni unnin innan deildarinnar.

"Það er von mín að með þessu náum við að koma á móts við kröfur samfélagsins og jafnframt að það náist viðtækur stuðningur við framkvæmd verkefnisins," segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan