Innrásin frá Ólafsfirði

Heiðdís Hólm.
Heiðdís Hólm.

Listasumar á Akureyri heldur áfram um helgina með tónaflóði, myndlistarsýningum og alls kyns uppákomum.

Lokatónleikar listasmiðjunnar Stelpur rokka verða haldnir í Rósenborg kl. 17 á morgun, föstudaginn 22. júlí og þá um kvöldið halda Nýdanskir tónleika á Græna hattinum. Á laugardaginn opnar Heiðdís Hólm sýningu í sýningarrýminu Kaktus undir yfirskriftinni „Það kom ekkert“ en það er fyrsta einkasýning hennar fyrir utan þá sem hún var með í ísskáp síðasta sumar og kl. 15 heldur Sunna Friðþjónsdóttir tónleika í Sal Myndlistarfélagsins en Sunna hefur undanfarið einbeitt sér að eigin tónsmíðum þar sem söngrödd hennar fær að njóta sín í deymandi söngstefjum með flæðandi píanóstuðningi og ljóðrænum texta.

Innrás frá Ólafsfirði verður gerð í Deigluna á laugardaginn en þar verða sýndar fjórar stuttmyndir frá listafólki sem dvelur í Artista listamannabústaðnum á Ólafsfirði.

Einnig er vert að minna á að í næstu viku hefst stuttmyndasmiðja fyrir 6-8 ára krakka sem listakonan Freyja Reynisdóttir stýrir. Skrifað verður einfalt handrit að stuttmynd sem krakkarnir leika í, leikstýra og spinna áfram undir dyggri stjórn Freyju. Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á netfangið listasumar@akureyri.is.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan