Snjómokstur gengur vel

Snjó hefur kyngt niður á síðustu vikum. Mynd: Ragnar Hólm.
Snjó hefur kyngt niður á síðustu vikum. Mynd: Ragnar Hólm.

Vel hefur gengið að moka götur á Akureyri síðustu daga þótt uppsöfnuð snjódýpt frá því um síðustu mánaðamót hafi verið um 60 sm. Með þessu framhaldi stefnir í að samanlögð snjódýpt þennan vetur verði um 3-3,5 metrar. Til samanburðar var heildarsnjódýpt veturinn 2014-15 um 2,95 metrar.

Sleitulaust hefur verið unnið að því að hreinsa íbúagötur frá því á mánudag og er þeirri vinnu nánast lokið. Víða um bæinn hefur snjónum verið mokað upp í mikla hauga sem smám saman er verið að fjarlægja en þeir geta þó skapað hættur í umferðinni. Eru vegfarendur beðnir að fara ævinlega varlega við gatnamót og þar sem búast má við umferð gangandi barna, s.s. við skóla bæjarins.

Kostnaður við þessa hreinsun síðustu þrjá daga er áætlaður um 10-12 milljónir króna. Heildarkostnaður á árinu 2015 var um 142,6 milljónir eða heldur lægri en árið á undan þegar hann var um 151 milljón króna. Kostnaður við mokstur í desember 2015 var 46,2 milljónir. Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir að um 105 milljónum króna verði varið í snjómokstur og hálkueyðingu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan