Eftirtektarverður árangur kynntur

Í kvöld, fimmtudaginn 20. nóvember, stendur Nýsköpunarhópur Akureyrar fyrir fundi á Hótel KEA með stuðningi Akureyrarstofu, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Stefnu hugbúnaðarhúss. Á fundinum verða kynningar tveggja frumkvöðla sem hafa náð eftirtektarverðum árangri með fyrirtæki sín.

Frumkvöðlarnir eru Hilmar Ingi Jónsson framkvæmdastjóri ReMake Electric, hugbúnaðarfyrirtækis sem hefur náð miklum árangri á síðustu árum með nýsköpunarlausnir í rafmagnsmálum á alþjóðavísu, og Björn Snorrason framkvæmdastjóri Dalpay sem er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki á Dalvík. Munu þeir félagar deila með fundargestum reynslu sinni af uppbyggingu fyrirtækja sinna og veita góð ráð.

Fundurinn hefst kl. 20 í kvöld á Hótel KEA. Hann er öllum opinn og er aðgangur ókeypis.

Nýsköpunarhópur Akureyrar er óformlegur vettvangur fólks sem starfar beint eða óbeint að nýsköpun eða hefur sérstakan áhuga á því sviði og hittist um það bil einu sinni í mánuði til að ræða möguleika til nýsköpunar í bænum.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan