Drusluganga á Akureyri

Á laugardaginn, 25. júlí kl. 14, leggur Druslugangan af stað frá planinu við Akureyrarkirkju. Gengið verður niður Gilið, gegnum miðbæinn og stefnan tekin á Ráðhústorg þar sem ætlunin er að taka lagið og minna á tilganginn með göngunni. Að öllum líkindum mun fólk úr göngunni taka til máls.

Druslugangan hefur verið árviss viðburður hér á landi frá árinu 2011 og undanfarin ár hafa önnur bæjarfélög, m.a. Akureyri fylgt í kjölfarið. Megintilgangur göngunnar er að standa upp fyrir þolendum kynferðisofbeldis, gegn gerendum. Skömminni er skilað þangað sem hún á heima. Markmiðið er að útrýma ranghugmyndum um að klæðnaður þolenda, fas þeirra og hegðun, bjóði upp á ofbeldið. Minnt er á að ofbeldi er aldrei réttlætanlegt. Burt séð frá klæðaburði eiga allir rétt á því að mörk þeirra séu virt og að fólk geti verið öruggt og frjálst.

Druslugangan (Slut Walk) er að erlendri fyrirmynd en hana má rekja til ummæla lögreglustjórans í Toronto sem gaf í skyn að konur gætu með klæðnaði sínum, t.d. stuttum pilsum, boðið upp á nauðganir. Þessu er alfarið hafnað.

Allir eru velkomnir í Druslugönguna, kröfuspjöld eru valfrjáls. Hver og einn þátttakandi ræður hvernig klæðnaði er háttað en þó er tilvalið að senda skilaboð með svipuðum hætti og gert hefur verið í fyrri göngum. Að göngunni standa áhugasamir einstaklingar. Skipulag er einfalt og yfirbygging engin.

Facebooksíða göngunnar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan