Dagskrá Verslunarmannahelgarinnar

Mikið verður um að vera um helgina á Akureyri. Sumarleikarnir ná hámarki með allskonar hreyfingu fyrir keppnisfólk á besta aldri auk þess sem skemmtanir fyrir alla fjölskylduna verða í boð, fjölbreyttir tónleikar og menningarviðburðir.

Föstudagsfílingur, tónleikar frá kl. 20.00 til 22.00, koma helginni af stað en þar koma fram Dúndurfréttir, Aron Óskar og Gréta Salóme svo eitthvað sé nefnt. Laugardagurinn verður fjölbreyttari en áður hefur verið þar sem Sportvers Ofurleikarnir verða haldnir í fyrsta skipti á flötinni neðan við Samkomuhúsið. Þar þreytir fólk þrautir utandyra í anda Crossfit. Á svæðinu er einnig braut fyrir þá sem vilja fá að komast í smá keppni án þess að þurfa að standa í hraustasta fólki Akureyrar. Fleiri viðburði má finna á http://www.icelandsummergames.com. Barnaskemmtun er svo um miðjan daginn frá kl. 14.00 þar sem Lína Langsokkur, Einar Mikael og Páll Óskar stíga á stokk. Kvöldið endar á glæsilegri tónleikadagskrá í miðbæ Akureyrar sem stendur frá kl. 20.30. Þar koma fram Made in Sveitin, Killer Queen með Magna, María Ólafs og fleiri.

Sunnudagur er lokasprettur Sumarleikanna. Þríþraut Íslensku Sumarleikanna verður haldin, "Kirkjutröppu Townhill" á fjallahjólum verður á sínum stað þar sem bestu fjallahjólakapparnir landsins takast á í einu skemmtilegasta móti helgarinnar. Sparitónleikar verða haldnir neðan við Samkomuhúsið þar sem fyrstu Sumarleika meistararnir verða krýndir og glæsileg tónlistaratriði eins og Glowie, Skítamórall, Úlfur Úlfur, Kött Grá Pje og Stórsveit Hvanndalsbræðra stígur á stokk, jafnvel bætist við ein systir. Kvöldinu lýkur síðan með flugeldasýningu og smábátar bæjarins lita Pollinn rauðan.  

Til að auðvelda gestum og heimafólki að finna bílastæði á miðbæjarsvæðinu um helgina má sjá aðgengileg bílastæði á meðfylgjandi korti.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan